Genin ráða gangi líkamsklukkunar

03.02.2016 - 04:49
Bjallan á vekjaraklukku.
 Mynd: Freephotosbank
Hvort sem menn eru morgunhanar eða næturhrafnar þýðir lítið að reyna að breyta þeirri hegðun. Það lítur nefnilega út fyrir að genin stjórni hvað líkamsklukkan slær.

Vísindamenn hafa lengi vitað að öll dýr og plöntur eru með svokallaða líkamsklukku sem er innstillt á 24 tíma. En dægursveiflurnar geta verið misjafnar meðal einstaklinga, sumir eru næturdýr á meðan aðrir taka eldsnemma á móti deginum.

Rannsóknarteymi á vegum bandaríska líftæknifyrirtækisins 23andMe fór í gegnum erfðamengi tæplega 90 þúsund manns í leit að vísbendingum um hvort genin hefðu áhrif á líkamsklukkuna. Einstaklingarnir voru spurðir hvort morgnar eða kvöld höfðuðu betur til þeirra. Niðurstöður leiddu í ljós að yfir tug mismunandi gena var öll að finna meðal heilbrigðra einstaklinga sem litu á sig sem morgunhana. Minni líkur voru á svefnleysi meðal þeirra, þeir þurftu ekki meira en átta stunda svefn yfir nóttina og morgunhanarnir urðu síður þunglyndir. Ríflega helmingur þeirra sem sögðust nátthrafnar voru þunglyndir.

Rannsakendur taka það skýrt fram að þó fylgni kunni að vera á milli gena og líkamsklukku, og morgunhana og aukins heilbrigðis, þá sé ekki endilega um að ræða orsakasamhengi.

 

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV