Gauti flytur þekkt íslenskt Eurovision lag

09.02.2017 - 10:48
Rapparinn Emmsjé Gauti kemur fram á fyrri undanúrslitakvöldi Söngvakeppninnar í Háskólabíói þann 25. febrúar og þekur þar sitt uppáhalds íslenska Eurovision lag. Rætt var við Gauta í Morgunútvarpinu á Rás 2 í dag og reynt að fá upp úr honum hvaða lag þetta væri.

„Atriðið sem ég ætla að taka, og ég ætla ekki að segja ykkur hvaða lag það er, það er atriði sem situr fast í minninu hjá mér,“ sagði Gauti, sem var nálægt því að kjafta af sér í viðtalinu. Hann þurfti að hugsa sig vel um áður en hann tók þetta verkefni að sér. „Ég hugsaði strax nei, mér datt ekki í hug að þetta gæti fittað fyrir mig. Síðan fór ég bara aðeins að hugsa hvað ég gæti gert og hvernig ég gæti útfært þetta, og þá varð ég strax mjög æstur í að vera með.“

Á síðast ári var bryddað upp á þeirri nýjung í Söngvakeppninni að fá þekkta tónlistarmenn til að þekja gömul íslensk Eurovision lög, og vakti það mikla lukku. Þá flutti 101 Boys sína útgáfu af Gleðibankanum, og á úrslitakvöldinu tóku Högni Egilsson og Glowie lagið All Out of Luck, sem Selma Björnsdóttir flutti í Eurovison árið 1999.