Gates ríkastur en Trump fellur um 220 sæti

20.03.2017 - 14:49
epa05264129 Co-Chair of the Bill and Melinda Gates Foundation and Microsoft Founder Bill Gates participates in the panel discussion on 'A New Vision for Financing Development' at the World Bank headquarters in Washington, DC, USA, 17 April 2016.
 Mynd: EPA  -  EPA
Bill Gates er fjórða árið í röð metinn ríkasti maður heims á lista Forbes tímaritsins. Eignir hans eru taldar nema um 86 milljörðum bandaríkjadala (meira en níu þúsund milljörðum króna). Í öðru sæti er Warren Buffet, með eignir upp á um 75,6 milljarða bandaríkjadala. Donald Trump, Bandaríkjaforseti fellur hins vegar niður um 220 sæti, niður í það 544. Björgólfur Thor Björgólfsson er eini íslendingurinn á listanum, í 1182. sæti með eignir upp á um 1.8 milljarða bandaríkjadala samkvæmt Forbes.

Alls eru yfir 2000 einstaklingar á þessum lista sem Forbes gefur út á hverju ári; 13 prósent fleiri en í fyrra. Flestir á listanum eru bandarískir, 565, kínverskir auðkýfingar eru 319 og í þriðja sæti Þýskaland, þaðan sem 114 milljarðamæringar koma. 

Bandarískir auðkýfingar eru áberandi í hópi efstu manna á listanum. Á eftir Gates og Buffet kemur Jeff Bezoz, stofnandi Amazon; í fimmta sæti er Mark Zuckerberg, stofnandi Facebook, Larry Ellisson stofnandi Oracle er í sjötta sæti, og í tíunda sæti er Michael Bloomberg, fyrrum borgarstjóri í New York. 

Björgólfur Thor er, rétt eins og áður, eini Íslendingurinn á listanum, og er í 1182. sæti. Eignir hans eru metnar af Forbes upp á um 1,8 milljarða bandaríkjadala. Í fyrra var Björgólfur í 1121. sæti

Björn Malmquist
Fréttastofa RÚV