Gaf sig á vald lögreglu eftir umsátur

13.03.2016 - 07:45
Lögregla umkringdi fjölbýlishús í Naustahverfi á Akureyri í nótt eftir að tilkynnt var um skothvelli. Maður á miðjum aldri var handtekinn um klukkan fimm í morgun eftir að lögreglumönnum barst liðsauki frá sérsveit Ríkislögreglustjóra.

Lögreglunni á Akureyri barst tilkynning um klukkan hálf tvö í nótt um að skothvellir hafi heyrst úr íbúð í húsi í Naustahverfi. Lögreglumenn umkringdu húsið, girtu af svæði í kringum það og lokuðu nærliggjandi götum fyrir umferð. Liðsauki var sendur til Akureyrar frá lögreglunni á Dalvík og Húsavík svo hægt væri að standa vörð um húsið og um leið sinna almennri löggæslu. 

Mynd með færslu
 Mynd: Björgvin Kolbeinsson  -  RÚV

Ekki hefur fengist staðfest hvort eða á hvað maðurinn skaut. Enginn meiddist meðan á þessu stóð, sagði Halla Bergþóra Björnsdóttir, lögreglustjóri á Norðurlandi eystra, í samtali við fréttastofu klukkan sex í morgun. „Það er bara rannsókn í gangi. Það er ekki hægt að staðfesta neitt um það, “ sagði Halla Bergþóra. „Lögreglan fór á staðinn ásamt sérsveitarmönnum sem eru staddir á Akureyri og gerðu ráðstafanir til að kalla á liðsauka frá sérsveit Ríkislögreglustjóra í Reykjavík og tryggja vettvang.

Fjöldi lögreglumanna, lögreglubíla og tveir sjúkrabílar voru á vettvangi. Umsátrið stóð yfir þar til um klukkan fimm.  „Sérsveitarmenn komu hérna frá Reykjavík. Maðurinn kom síðan sjálfviljugur út.“ Karlmaðurinn sem er á miðjum aldri var fluttur á lögreglustöð og dregið úr viðbúnaði í Naustahverfi.

„Næst heldur bara rannsókn málsins áfram. Það er núna í gangi vettvangsrannsókn sem rannsóknardeildin hér á Akureyri sinnir,“ sagði Halla Bergþóra. „Síðan verður líklega yfirheyrsla á manninum seinna í dag.“

Mynd með færslu
 Mynd: Brynjólfur Þór Guðmundsson  -  RÚV
Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV