Fyrstu samningar um land undir nýjan veg

18.05.2017 - 15:59
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Vegagerðin hefur gert fyrstu samninga við landeigendur vegna kaupa á landi undir nýjan hluta hringvegarins í Hornafirði. Fjórar brýr verða byggðar á nýjum vegkafla og um leið fækkar einbreiðum brúm á hringveginum um þrjár.

Sveitarfélagið Hornafjörður hefur þegar veitt Vegagerðinni framkvæmdaleyfi fyrir lagningu á nýjum kafla hringvegarins í sveitarfélaginu. Ríkisstjórnin ráðstafaði 200 milljónum króna til að hefja framkvæmdir á þessu ári, en einn milljarður var ætlaður í verkið á samgönguáætlun.

Fyrstu samningarnir undirritaðir

15. maí voru fyrstu samningar við landeigendur undirritaðir vegna kaupa Vegagerðarinnar á landi undir veginn. Landið tilheyrir jörðunum; Lambleiksstöðum, Hólmi, Borgum, Árbæ og Brunnhóli.

Hringvegurinn styttist og einbreiðum brúm fækkar

Nýr vegur mun liggja á milli bæjanna Hólms í vestri og Dynjanda í austri. Vegurinn verður 17,5 kílómetra langur og styttir hringveginn um 12 kílómetra. Fjórar brýr verða í fyrirhuguðum framkvæmdum; yfir Djúpá, Hornafjarðarfljót, Austurfljót og Bergá. Um leið fækkar einbreiðum brúm á hringveginum um þrjár.