Fyrirskipar engar launahækkanir í Straumsvík

15.01.2016 - 14:22
Aðalforstjóri Rio Tinto, sem er eigandi álversins í Straumsvík, hefur tilkynnt að laun allra starfsmanna verði fryst á þessu ári, frá forstjóra og niður úr. Ekki er ljóst hvaða áhrif þessi ákvörðun hefur á kjaradeiluna í álverinu.

Sam Walsh, aðalforstjóri Rio Tinto, tilkynnti þetta í bréfi á þriðjudag til allra starfsmanna samsteypunnar sem er með rekstur víða um heim. Starfsmenn Álversins í Straumsvík fengu svo að vita af þessu í fyrradag. Fram kemur að fyrirtækið leggi höfuðáherslu á að hámarka lausafé og það verði gert með því að frysta allar launahækkanir. Engar launahækkanir verði á árinu 2016 nema að kveðið sé á um það í lögum eða þegar búið að semja um þær segir í bréfi til starfsmanna í Straumsvík.  Enn hefur ekki verið samið í kjaradeilu starfsmanna og álversins sem hefur staðið yfir í rúmt ár. Ólafur Teitur Guðnason, upplýsingafulltrúi álversins, segir að ekki sé fyllilega ljóst hvaða áhrif þessi ákvörðun Rio Tinto hefur á yfirstandandi kjaradeilu, það verði skoðað á næstunni. Eða með öðrum orðum stjórnendur álversins hér vita ekki hvort þeim sé heimilt að fallast á launakröfur sem legið hafa fyrir í marga mánuði. Gylfi Ingvarsson talsmaður starfsmanna, segir að þetta staðfesti að aldrei hafi staðið til að semja.

„Þarna er komið fram af hverju þeir hafa alltaf dregið lappirnar og fundið ástæðu til að slíta viðræðum. Það hefur ekki verið meiningin að semja,“ segir Gylfi Ingvarsson.

Mynd með færslu
Arnar Páll Hauksson
Fréttastofa RÚV
Spegillinn
Þessi þáttur er í hlaðvarpi

Tengdar fréttir