„Fyllsta ástæða til bjartsýni“

01.02.2016 - 07:57
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Birkir Halldórsson, sem á sæti í samninganefnd flugvirkja Samgöngustofu, er bjartsýnn á að kjaradeila þeirra við ríkið ljúki í dag. Nýr samningafundur hefur verið boðaður í hádeginu í dag.

Samninganefndir flugvirkja Samgöngustofu og ríkisins funduðu hjá Ríkissáttasemjara fram á ellefta tímann í gærkvöldi, þegar samningafundinum var frestað.

Sex flugvirkjar Samgöngustofu, sem sinna eftirlitsstörfum, hafa verið í verkfalli í þrjár vikur. Þeir hafa farið fram á sambærilegan kjarasamning og flugvirkjar Landhelgisgæslunnar njóta, sem ríkið hefur ekki fallist á til þessa. Birkir segir ástæðu til bjartsýni .

„Við funduðum frá klukkan tvö til tíu í gær og gekk nú alveg ágætlega að við teljum. Staðan er þannig að við tókum hlé á fundi til hádegis í dag, og ég held að það sé nú bara fyllsta ástæða til bjartsýni þar. Aðilar eru ennþá að tala saman og það er verið að skoða öll mál,“ segir Birkir í samtali við fréttastofu. Hann á von á því að kjaradeilan leysist jafnvel í dag. „Ja, við vonum það, og við fundum að það er vilji til samninga hjá báðum aðilum þannig að það er von okkar að þetta fari langt í dag, já,“ segir Birkir.

„Þeir náttúrulega vilja að sjálfsögðu bara snúa til sinna starfa aftur og leysa úr þeim málum sem hafa hrannast upp á meðan þeir hafa verið í verkfalli.“

 

Ægir Þór Eysteinsson
Fréttastofa RÚV