Fylgdu slóða í GPS tæki út í Sporðöldulón

24.02.2016 - 14:40
Mynd með færslu
Útgáfa Íslandskorts 2016, Sporðöldulón fyrir miðju myndar.  Mynd: Íslandskort  -  Garmin
Mennirnir þrír sem höfnuðu í Sporðöldulóni, síðastliðinn sunnudag, fylgdu GPS tæki og töldu sig vera að aka eftir vegslóða. Lónið er nýtt og því hefur það ekki enn ratað í kortagrunn GPS tækja. Starfsmaður Landsbjargar segir ávallt varhugavert að fylgja GPS tækjum í blindni.

Lónið ekki á Íslandskorti Garmin

Vont veður og slæmt skyggni var síðastliðinn sunnudag þegar mennirnir þrír höfnuðu í Sporðöldulóni. Þeir eru vanir útivistarmenn og voru á vel útbúnum bíl. Ekki er ljóst hvort mennirnir voru með nýjustu kortauppfærslu Íslandskorts, sem eru í GPS tækjum Garmin, en þótt þeir hefðu verið með nýjustu uppfærslu kortanna þá hefði lónið ekki verið á kortunum. Sporðöldulón er uppistöðulón Búðarhálsvirkjunnar sem var tekin í gagnið árið 2014. Samsýn, sem sér um Íslandskort, bárust upplýsingar frá Landmælingum Íslands um breytt landslag í desember 2014 en þá var búið að ganga frá kortauppfærslu ársins 2015. Því ratar lónið ekki á kort GPS tækja fyrr en 1. mars á þessu ári.

Mynd með færslu
 Mynd: Íslandskort  -  Garmin
Útgáfa Íslandskorts 2015 - lónið er ekki á kortinu.

Ábyrgð notenda að uppfæra kortin

Þrátt fyrir að ný kort séu gefin út þá er það á ábyrgð notenda að verða sér út um þau og greiða fyrir uppfærsluna, því eru margir sem uppfæra kortin sín ekki í hvert skipti og ný útgáfa kemur út. Jónas Guðmundsson hjá Landsbjörgu segir þetta tilvik sannarlega vera sérstakt en varpi ljósi á ófullkomleika GPS tækja. „Maður á aldrei, og þá er erfitt að segja aldrei. Því stundum skapast þær aðstæður eins og í þessu tilfelli að maður verður að elta í blindni feril í GPS tæki.“ Hann segir jafnframt að þótt maður setji inn leiðréttingar inn í GPS tæki til að það sé sem réttast þá geti alltaf verið skekkja uppá 5-10 metra og jafnvel 10-30 metra.

Vegi breytt í vatn

„Þetta er náttúrlega sérstakt dæmi, þar sem vegi er breytt í vatn, sem gerist sem betur fer ekki oft,“ segir Jónas en hann telur ábyrgðina á upplýsingagjöf um breytt landslag liggja hjá framkvæmdaraðilum: „Þeir framkvæmdaraðilar verða náttúrlega að merkja og auglýsa breytingar vel. Hafa samband við Samsýn, Landmælingar og Garmin og þá sem er að vinna að þessu svo breytingarnar verði öllum ljósar.“ Samkvæmt upplýsingum frá Landsvirkjun þá hefur lónið verið merkt með endurskinsskiltum. „Það er frekar að það sé kvartað yfir því að það sé of vel merkt,“ segir Jón Cleon, á samskiptasviði Landsvirkjunar. Hann segir líklegt að slæmt skyggni og snjór hafi komið í veg fyrir að mennirnir á sunnudag urðu varir við merkingarnar þar sem þær séu mjög áberandi. Hann segir jafnframt að Landsvirkjun hafi látið vita af breytingum landslagsins, með þeim hætti sem þeim ber en segist undrandi yfir þeim tíma sem uppfærslan taki.

Mynd með færslu
Halla Ólafsdóttir
Fréttastofa RÚV