Fundur Trumps „ótrúlegt augnablik í sögunni“

17.02.2017 - 10:06
Donald Trump Bandaríkjaforseti á blaðamannafundi 16. febrúar 2017.
 Mynd: EPA
Blaðamannafundur Donalds Trumps í gær þykir ótrúlegur. Forsetinn sakaði fjölmiðla um óheiðarleika og hatur í sinn garð - þeir eigi að skammast sín. Trump sagðist hafa tekið við hörmulegu búi frá fyrri ríkisstjórn. Þá fullyrti hann að hneykslismál sem snýst um samskipti samstarfsmanna Trumps við Rússa sé blekking ein. Trump fór með rangt mál á fundinum sem fréttaskýrendur segja að hafi verið óreiðukenndur. „Ég er ekki að skammast og bölsótast“ („I'm not ranting and raving“) sagði Trump í gær.

Ótrúlegt augnablik í sögu mannkyns

„Ótrúlegt augnablik í mannkynssögunni: Blaðamannafundur Donalds Trumps“

(„An amazing moment in history: Donald Trump's press conference“) er yfirskrift fréttar CNN um fundinn. Önnur dæmi um fyrirsagnir eru:

„Maraþon-skammarræða Trumps út í fjölmiðla“

(„Trump goes on marathon rant against the media“) í New York Post;

„Ringulreið“, „óreiða“, „falsfréttir“, „uppnám“. „Trump sleppir sér á blaðamannafundi.“

(„Chaos.“ „Mess“. „Fake news.“ „Turmoil.“ „Trump lets loose at press conference“), á vef USA Today;

„Trump ræðst harkalega og persónulega gegn fjölmiðlum á blaðamannafundi sem minnst verður um langa hríð.“

(„Donald Trump delivers a series of raw and personal attacks on the media in a news conference for the ages“) er yfirskrift umfjöllunar Washington Post.

Trump sagði á fundinum að hann hafi tekið við afar slæmu búi frá forvera sínum í embætti. Í raun væri allt í rugli („it´s a mess“) eftir fyrri ríkisstjórn. Hann úthúðaði fjölmiðlum - sagði þá óheiðarlega og hatursfull. Á blaðamannafundinum, sem sendur var út í beinni útsendingu til að mynda á Youtube, sagðist Trump vera að tala beint til þjóðarinnar.

Trump fullyrti að engin ríkisstjórn hafi komið jafn miklu í verk á jafn skömmum tíma. Samt sé stjórn sín rétt að byrja. Hann sagði að gríðarstórar aðgerðir verði tilkynntar strax í næstu viku.

Þá fór Trump með rangt mál. Hann fullyrti til að mynda að eina vandamálið við ferðabannið sem stjórn hans setti á, hafi verið dómstólar landsins. Þetta er ekki rétt. Bannið olli upplausn á flugvöllum landsins og víða í stjórnkerfinu. Þá sagðist Trump vera sá forseti sem unnið hefði stærstan kosningasigur frá því að Ronald Reagan var forseti Bandaríkjanna. Þegar fréttamaður NBC benti forsetanum á að þetta væri einfaldlega rangt - Obama, Bush og Clinton hafi allir fengið fleiri atkvæði en Trump, sagði forsetinn að þetta væri einfaldlega eitthvað sem sér hafi verið bent á.

„Hættu þessu væli“

Jake Tapper, fréttalesari og aðalfréttaritari CNN í Washington, hvatti Trump í gær til að „hætta þessu væli“ („stop whining“). Hann sagði að fréttamannafundur Trumps minnti helst á Festivus, tilbúna hátíð úr gamanþáttunum Seinfeld, sem hefst á því að fólk ber á borð umkvörtunarefni sín. Trump hafi byrjað á því að stæra sig af afrekum sínum. En í stað þess að einbeita sér að því og slá bjartsýnan tón, hafi Trump kvartað og kveinað undan fjölmiðlum.

Kári Gylfason
Fréttastofa RÚV