Fundu dauða branduglu við skóla

05.01.2016 - 10:00
Mynd með færslu
 Mynd: Gunnar Hrafn Jónsson  -  RÚV
Mynd með færslu
Þorleifur Eiríksson með brandugluna.  Mynd: Gunnar Hrafn Jónsson  -  RÚV
Mynd með færslu
 Mynd: Börkur Gunnarsson
Vegfarendur gengu fram á dauða branduglu á bílastæði Suðurhlíðaskóla í Reykjavík í gær. Fuglinn virðist hafa látið í minni pokann í viðureign við rándýr.

Þeir fóru með hræið á Náttúruminjasafn Íslands til nánari skoðunar og varðveislu. Þorleifur Eiríksson dýrafræðingur segir að ekki sé búið að ljúka skoðun á uglunni. Hann telur að dýrið sem drap ugluna hafi verið mjög öflugt. „Það var búið rífa úr annan flugvöðvann, sem í matseld er kallaður bringa, inn að beini öðrum megin. Fyrst var bitið í væng og hann brotinn og síðan barist mikið um. Það sést á hinum vængnum sem hruflaður.“

Þorleifur segir fugla ekki sitt sérsvið en þetta hafi hann aldrei séð áður. „Þetta er ekki mín sérgrein. Þetta er óhuggulegt að sjá og athyglisvert.“

Vargurinn gæti hafa verið minkur vegna nálægðar við sjóinn en svo geti villikettir líka verið stórir og öflugir. Ummerki í kringum hræið sýni að þarna hafi verið mikil læti. „Þetta var væntanlega ungi frá því í sumar. Þarna er opið land og mikið um mýs. Hún hefur verið að svífa yfir til að taka mús,“ segir Þorleifur. Branduglur séu mun algengari fuglar en menn haldi. „Þær eru meira á ferli í ljósaskiptum. Branduglur svífa hljóðlaust lágt yfir jörðinni í ljósaskiptunum og því sjá menn þær mjög sjaldan. Það ber lítið á þeim.“

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV