Föt úr sítrónum og kúamykju

14.09.2017 - 15:05
Stefán Gíslason fjallaði um alþjóðlegu breytingaverðlaunin í umhverfispistli sínum í Samfélaginu á Rás 1.

Ýtt undir náttúruvænni tískuiðnað

Í gær, 13. september, var opnað fyrir umsóknir um alþjóðlegu breytingaverðlaunin eða Global Change Award, eins og þessi verðlaun nefnast á ensku. Þetta verður í þriðja sinn sem verðlaunin verða veitt, en þeim var formlega komið á fót árið 2015. Markmiðið með verðlaununum er að styðja við þróun nýrra uppfinninga sem þykja líklegar til að breyta tískuiðnaðinum eins og hann leggur sig frá því að vera línulegur iðnaður, þar sem auðlindir eru notaðar og síðan hent, í að vera hringrásariðnaður, þar sem notað efni verður að nýju efni og ekkert fer til spillis, þ.e.a.s. iðnaður í anda hringrásarhagkerfisins.

Þeir fjölmörgu Íslendingar sem lagt hafa leið sína í verslunina sem fatarisinn H&M opnaði á Íslandi á dögunum, hljóta að hafa velt því fyrir sér hvað eigandi verslunarinnar geri við alla peningana sem hann fær fyrir fötin, sem hlýtur vel að merkja að vera dágóð summa þó að hver flík sé kannski frekar ódýr. H&M er svo sem ekki í eigu eins manns, en þetta er samt að grunni til fjölskyldufyrirtæki sem Svíinn Erling Persson stofnaði fyrir 70 árum, þ.e.a.s. árið 1947. Þetta sama ár eignuðust Perssonhjónin soninn Stefan Persson sem tók við fyrirtækinu árið 1982 og stjórnaði rekstri þess að mestu leyti þangað til sonur hans, Karl-Johan Persson tók við stjórnartaumunum árið 2009. Stefan Persson er einmitt stærsti eigandi H&M og er reyndar líka ríkasti maður Svíþjóðar, já eða næstríkasti, allt eftir því hvaða blöð maður les.

Nú er eðlilegt að spurt sé hvernig H&M og Stefan Persson tengist Alþjóðlegu breytingaverðlaununum. Stefan Persson er kannski ekki maður mikilla breytinga, en Persson-fjölskyldan notaði samt eitthvað af H&M-peningunum sínum til að koma á fót H&M-stofnuninni, sem hefur unnið að ýmsum góðum málum síðustu ár. Alþjóðlegu breytingaverðlaunin eru eitt af þeim verkefnum sem stofnunin hefur tekið sér fyrir hendur. Hluti af peningunum sem viðskiptavinir H&M eyða í verslunum fatarisans fer sem sagt, beint eða óbeint, í að styðja við þróun tískuiðnaðarins í átt til sjálfbærni.

Framsæknar hugmyndir og óvenjulegar leiðir

Á þeim tveimur árum sem liðin eru síðan Persson-fjölskyldan stofnaði til Alþjóðlegu breytingaverðlaunanna í gegnum H&M-stofnunina, hafa 10 verkefni fengið þessi verðlaun, auk tveggja sem hlotið hafa sérstakar byrjendaviðurkenningar. Á listanum yfir vinningshafa kennir margra grasa. Þannig fóru aðalverðlaunin á liðnu vori til ítalska húsgagnahönnuðarins Gianpiero Tessitore og félaga hans, sem hafa þróað aðferð til að búa til plöntuleður, nánar tiltekið úr úrgangi frá vínframleiðslu. Þetta leður getur komið í staðinn fyrir hefðbundið leður með öllum þeim álitamálum sem því fylgja og varða m.a. dýravelferð og notkun á sýrum, þungmálmum og ógrynni af vatni í sútun og aðra vinnslu – og líka í staðinn fyrir gervileður með öllu því plastfargani, mýkingarefnum og leysiefnum sem því fylgja.

Bómull þarf að nýta betur

Vorið 2016 fóru aðalverðlaunin til finnsks hóps sem hefur þróað aðferð til að breyta ónýtri bómull í nýja með sérstöku heilsuvænu leysiefni sem gerir það mögulegt að nota sellulósaþræði aftur og aftur sem nýir væru. Upphaflega hugmyndin tengdist nýtingu sellulósa úr skógarafurðum til framleiðslu á þráðum í fataframleiðslu en af því að bómull er hvort sem er líka bara sellulósi var upplagt að nota aðferðina til að gefa gömlum bómullarþráðum nýtt líf. Þar er til mikils að vinna í umvherfislegu tilliti, því að til að rækta bómull sem dugar í einar gallabuxur þarf alla jafna um 7.000 lítra af vatni. Auk þess fer eftirspurn eftir bómull vaxandi á sama tíma og framleiðslan dregst saman. Árið 2030 búast menn jafnvel við að framleiðslan verði hætt að svara eftirspurninni. Við gætum sem sagt séð fram á bómullarskort í náinni framtíð ef við hættum ekki að henda bómullarþráðum eins og enginn sé morgundagurinn.

Endurvinnsla á pólýester

Af öðrum áhugaverðum hugmyndum sem fengið hafa skerf af Alþjóðlegu breytingaverðlaununum má nefna sólartextíl, þ.e.a.s. verkefni þar sem sólarorka er notuð til að framleiða nælonþræði úr lífmassa í stað þess að nota jarðolíu eins og tíðkast hefur hingað til, með tilheyrandi mengun og losun gróðurhúsalofttegunda. Annað dæmi um verðlaunahafa er pólýestermeltarinn, sem tveir ungir Bandaríkjamenn hafa þróað og gerir það mögulegt að endurvinna pólýester í stað þess að búa til nýtt efni úr olíu eins og menn hafa gert hingað til. Þarna er til mikils að vinna, þar sem pólýester er orðið algengasta hráefnið í fataframleiðslu. Í raun er pólýester bara ákveðið afbrigði af plasti, þannig að þeir sem vilja halda upp á plastlausan september ættu kannski að kíkja á þvottamiðann í fötunum sínum. Reyndar á pólýestermeltarinn enn nokkuð í land með að skila pólýesterþráðum sem geta keppt við „ferskan“ olíupólýester, sem kostar nánast ekki neitt, nema umhverfisáhrifin sem komandi kynslóðir fá reikninginn fyrir. Já, og vel á minnst: Á hverju ári fara um 40 milljón tonn af pólýester til spillis á urðunarstöðum heimsins!

Plöntuleður og kúamykjuföt

Hér vinnst ekki tími til að lýsa öllum þessum tíu áhugaverðu verkefnum sem hafa fengið Alþjóðlegu breytingarverðlaunin. Samt er ekki hægt að skilja við þessa upptalningu án þess að minnast á framleiðslu plöntuleðurs úr þörungum og þræði sem spunnir eru úr berki og öðrum úrgangi frá sítrónum. Í því sambandi er gott að hafa í huga að á Ítalíu einni er hent um 700.000 tonnum af sítrónuúrgangi á hverju ári. Já, og síðast en ekki síst er óhjákvæmilegt að nefna verkefni Hollendingsins Jalílu Essaïdi, en henni og félögum hennar hefur tekist að vinna sellulósaþræði fyrir fataiðnað úr kúamykju og hámarka þannig virði þeirrar dýrmætu afurðar um leið og dregið er úr metanlosun með tilheyrandi gróðurhúsaáhrifum.

Eins og ég nefndi í upphafi þessa pistils var opnað fyrir umsóknir í gær, þannig að þeir sem vilja næla sér í Alþjóðlegu breytingaverðlaunin ættu að drífa sig í að senda inn lýsingu á hugmyndinni sinni. Umsóknarfrestur er til 31. október næstkomandi og umsóknum er hægt að skila inn á heimasíðu verðlaunanna, globalchangeaward.com. Í nóvember mun hópur sérfræðinga með sérþekkingu á tísku, sjálfbærni, hringrásarkerfum og nýsköpun, fara yfir allar umsóknirnar og velja fimm þær bestu. Þetta er heilmikil vinna, en niðurstaða sérfræðinganna mun liggja fyrir sunnudaginn 11. mars næstkomandi. Næstu fimm daga þar á eftir gefst almenningi um heim allan kostur á að skipta verðlaununum, sem nema samtals einni milljón evra eða um 128 milljónum íslenskra króna, á milli þessara fimm hugmynda. Hugmyndin sem fær flest atkvæði stendur uppi sem sigurvegari og fær 300.000 evrur í sinn hlut. Næsta hugmynd fær 250.000 evrur og hugmyndirnar sem lenda í 3.-5. sæti fá 150.000 evrur hver um sig. Úrslitin verða svo tilkynnt og verðlaunin afhent við hátíðlega athöfn í Stokkhólmi þriðjudaginn 20. mars. Og auk verðlaunafjárins fá allir sigurvegararnir aðgang í eitt ár að sérstökum frumkvöðlahraðli í boði H&M-stofnunarinnar, ráðgjafarrisans Accenture og Konunglega tækniháskólans í Stokkhólmi (KTH).

Nú er bara um að gera að senda inn umsókn um Alþjóðlegu breytingaverðlaunin og taka þátt í að breyta tískuiðnaðinum til betri vegar. Tækifærin liggja víðar en maður heldur, samanber kúamykjuna, og góðu fréttirnar eru þær að þarna úti er fullt af fólki sem vinnur hörðum höndum að því að nýta þessi tækifæri, mannkyninu og vistkerfinu til góðs. Tími breytinga er runnin upp – og bjart framundan!

Mynd með færslu
Þórhildur Guðrún Ólafsdóttir
dagskrárgerðarmaður
Samfélagið
Þessi þáttur er í hlaðvarpi