Foreldrafélagið samþykkti að skólastjóri víki

14.09.2017 - 16:18
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Foreldrafélag Breiðholtsskóla samþykkti á fundi í gærkvöldi að nauðsynlegt sé að skólastjóra Breiðholtsskóla verði vikið úr starfi á meðan Menntamálastofnun geri úttekt á starfsemi skólans.

Félagið leggur jafnframt til að skóla- og frístundasvið Reykjavíkurborgar taki alvarlega ábendingar um stjórnun og samskipti innan skólans. Foreldrafélagið lýsir yfir fullu trausti til kennara og starfsfólks.

Aðdragandi málsins er sá að hópur foreldra leitaði til umboðsmanns borgarbúa vegna þess að þeim þótti ekki hafa verið brugðist rétt við eineltismálum í skólanum. 

Anna Sif Jónsdóttir, formaður foreldrafélagsins, segir að fundarmenn hafi verið sammála um mikilvægi trausts á báða bóga, milli foreldra og stjórnenda sem og kennara og annars starfsfólks. Það sé grunnurinn að öllu umbótastarfi. „Það þarf að nást sátt um skólann, þessi tortryggni sem er til staðar þarf að fara og það þarf að taka á eineltismálum. Það virðist vera grunnurinn að óánægjunni hvernig tekið er á eineltismálum. Jafnframt er nauðsynlegt að bæta upplýsingagjöf til foreldra,“ segir Anna Sif.

RÚV hefur sagt fréttir af því að foreldrar hafi ítrekað kvartað við skóla- og frístundasvið Reykjavíkurborgar og tugir barna hafi farið í aðra skóla vegna óánægjunnar. Reykjavíkurborg lét vinna mat á skólanum og í því kom fram að bæta þurfi meðferð eineltismála og stjórnunar- og samskiptahætti innan skólans.

Í yfirlýsingu sem send var RÚV þann 7. september og 38 starfsmenn skólans skrifa undir er þeirri staðhæfingu vísað á bug að ekki sé tekið á eineltismálum.

Alls mættu 79 foreldrar á fund foreldrafélagsins í gærkvöldi. Í fundargerð kemur fram að foreldrum sé umhugað um að ná friði og sátt um skólastarf og séu tilbúnir til að taka þátt í umbótastarfi af heilum hug. Mikið hafi verið rætt um mikilvægi trausts milli þeirra sem að skólastarfinu komi.

Eftirfarandi ályktun var samþykkt á fundinum:

 

„Lagt er til að skóla- og frístundasvið taki alvarlegar ábendingar í ytra mati á stjórnun og samskiptum innan Breiðholtsskóla til úrvinnslu strax. Samhliða verði hafist handa við að vinna fullt óháð ytra mat á starfsemi Breiðholtsskóla sem unnið verði af Menntamálastofnun. Fundur foreldra lýsir jafnframt yfir fullu trausti til kennara og annars starfsfólks Breiðholtsskóla. Meðan á þessari vinnu stendur er nauðsynlegt að skólastjóri Breiðholtsskóla víki og sérstöku umbótateymi, sem meðal annars verði skipað óháðum sérfræðingum, verði falið að vinna fyrsta áfanga umbótaáætlunar í starfsemi Breiðholtsskóla byggð á ytra mati á stjórnun og samskiptum innan skólans.“

 

Þá kemur fram að meirihluti fundarmanna hafi einnig samþykkt að fréttastofa RÚV mætti fá afrit af ályktun ef kallað yrði eftir henni. Allir foreldrar í Breiðholtsskóla fengu ályktunina senda í tölvupósti í dag.