Flugvirkjar stefna Icelandair

17.07.2017 - 10:53
Mynd með færslu
Verð á flugfargjöldum hefur lækkað milli mánaða  Mynd: RUV
Flugvirkjafélag Íslands hefur kært tækniþjónustu Icelandair til Félagsdóms vegna breytinga á verklagi á Keflavíkurflugvelli. Þetta staðfestir formaður félagsins í samtali við fréttastofu. Búið er að þingfesta málið en önnur stefna gæti verið á leiðinni.

Þann 20. apríl sl. breytti Icelandair verklagi á Keflavíkurflugvelli þannig að flugvirkjar hafa ekki lengur umsjón með að ýta flugvélum úr hlaði, heldur hefur það færst til hlaðdeildar Icelandair.

Verkið frá upphafi á ábyrgð flugvirkja

Óskar Einarsson, formaður Flugvirkjafélags Íslands, segir að verkið hafi frá upphafi verið á ábyrgð flugvirkja. Allar vélar sem komi til Keflavíkurflugvallar séu undir eftirliti og ákvörðunartöku flugvirkja þar til þær eru tilbúnar til flugs aftur. Einn hluti af því sé að ýta flugvélum úr hlaði. Hann segir forsvarsmenn Icelandair hafa tilkynnt með einu bréfi, algjörlega án samráðs við flugvirkja, að verkið færðist til hlaðdeildar Icelandair. Við þetta eru flugvirkjar ósáttir og hafa kært ákvörðunina til Félagsdóms. Málið hefur verið þingfest og verður tekið fyrir í lok ágúst. 

Kanna grundvöll fyrir annarri málsókn

Icelandair hefur sömuleiðis ákveðið að umsjón með afísingu flugvéla félagsins verði tekin úr umsjón flugvirkja og fært í hendur hlaðdeildarinnar. Óskar segir vel koma til greina að sú ákvörðun verði einnig kærð til Félagsdóms. „Við komum til með að kanna það mál mjög ítarlega,“ segir hann. 

Samkvæmt handbókum Icelandair hafa umrædd verk tilheyrt flugvirkjum. Óskar segir að flugrekandi geti breytt slíkum reglum í samræmi við eftirlitsaðila. Hins vegar hafi flugvirkjar séð um þetta frá upphafi, sem hafi fordæmisgildi. 

Jón Þór Kristjánsson
Fréttastofa RÚV