Fjórtán heitir þættir væntanlegir í vetur

Listar
 · 
Sjónvarp
 · 
Við mælum með
 · 
Menningarefni
Marvel's The Defenders
 Mynd:  -  TheTvDb

Fjórtán heitir þættir væntanlegir í vetur

Listar
 · 
Sjónvarp
 · 
Við mælum með
 · 
Menningarefni
Mynd með færslu
26.08.2017 - 15:17.Nína Richter
Sjónvarpsárið 2017 er með besta móti og með haustinu fara fjölmargar metnaðarfullar framleiðslur í loftið, bæði á erlendum streymisveitum og einnig í línulegri útsendingu. Þá verða ofurhetjuþættir, geimfantasíur og mannshvörf vinsæl viðfangsefni á komandi framleiðslutímabili, en einnig kemur ný þáttaröð byggð á Alias Grace eftir rithöfundinn Margaret Atwood.

Vår tid är nu

Að vanda mun RÚV bjóða upp á sérvalið evrópskt efni. Svíar mæta til leiks með áferðarfallega og fokdýra framleiðslu sem minnir einna helst á hina geysivinsælu Downton Abbey, en þessir rómantísku dramaþættir eru ein stærsta framleiðsla sænskrar sjónvarpssögu. Sagan er sögð í tveimur þáttaröðum. Sögusviðið er Svíþjóð undir lok seinna stríðs og segir sagan frá ástum og örlögum Löwander-fjölskyldunnar sem rekur einn vinsælasta veitingastaðinn í Stokkhólmi. Þættirnir verða sýndir á RÚV í vetur og hefjast sýningar í nóvember.

Life Sentence

Um áramótin næstu mun sjónvarpsstöðin The CW senda frá sér þætti sem fjalla um unga konu sem greinst hefur með banvænt krabbamein, og hefur hún eytt undanförnum árum í að lifa hvern dag líkt og hann væri hennar síðasti. En líkt og fyrir kraftaverk læknast hún af veikindum sínum og þarf í framhaldinu að endurskoða forgangsröðunina í lífi sínu, en aðstandendur hennar þurfa ekki síður að gera upp málin sín megin.

ALEX, INC.

Aðdáendur Zach Braff, leikarans knáa úr læknaþáttunum Scrubs, ættu að gleðjast yfir væntanlegum þáttum sem Braff skrifar sjálfur, leikstýrir og fer að auki með aðahlutverkið í. Sagan segir frá Alex sem er fjölskyldumaður á fertugsaldri sem ákveður að segja starfi sínu í frumkvöðlasetri lausu og snúa sér að hlaðvarpsframleiðslu.

Splitting up together

Þættirnir koma frá ABC sjónvarpsrisanum sem færði okkur m.a. Mad Men. Þættirnir segja frá hjónum um fertugt sem ákveða að skilja, en ætla þrátt fyrir það að búa áfram saman á heimili fjölskyldunnar ásamt börnum sínum tveimur. Þættirnir byggja á dönsku þáttunum Bedre skilt end aldrig og eru bandarísk aðlögun. Meðal framleiðenda er spjallþáttadrottningin Ellen DeGeneres, og með aðalhlutverk fara Jenna Fischer og Oliver Hudson.

Dark

Netflix heldur áfram að feta sig í átt að alþjóðlegum framleiðslum og nýjasta dæmið um það eru hryllingsþættirnir Dark. Þeir eru þýsk framleiðsla sem við fyrstu sýn hefur til að bera sterk líkindi með hinum ofurvinsælu Stranger Things. Þættirnir fjalla um fjórar fjölskyldur í uppskálduðum þýskum smábæ, sem tengjast í gegnum óhuggulegt mannhvarfsmál þar sem tveir ungir drengir hverfa sporlaust. Líkt og Stranger Things gerast þættirnir í fortíðinni, í þetta skiptið á tveimur tímalínum, á sjötta og á áttunda áratugnum. Þættirnir verða frumsýndir í lok árs 2017 en þess má geta að seinni serían af Stranger Things kemur nokkru áður, og er væntanleg 27. október nk.

Star Trek: Discovery

Hér er á ferðinni ný Star Trek þáttaröð, en sagan á að gerast 10 árum áður en saga upprunalegu þáttanna hefst. Heillandi tæknibrellur, nútímaleg og uppfærð myndræn frásögn og öflug hljóðmynd í kynningarstiklum gefa til kynna fokdýra framleiðslu og mikið sjónarspil sem aðdáendur söguheimsins munu áreiðanlega ekki vilja missa af.

The Orville

Þættirnir ættu að fallla í kramið hjá þeim sárafáu áhorfendum sem finnst áhugamannakúltúrinn í kringum geimferðafantasíur vera broslegur. Þættirnir verða frumsýndir á bandarísku Fox sjónvarpsstöðinni þann 10. september næstkomandi, og segja frá ævintýrum áhafnar U.S.S. Orville, sem er landkönnunargeimskip. Þáttunum hefur verið lýst sem blöndu af Family Guy, eldri þáttum Star Trek og Galaxy Quest, og jafnvel minna þeir á Futurama þættina frá Matt Gröening, væri Futurama í leikinni útgáfu. Hinn ástsæli leikari Seth MacFarlane fer með hlutverk kafteins áhafnarinnar.

The Defenders

Ofurhetjuþættir verða vinsælir í haust, en þættirnir The Defenders verða eitt af flaggskipum Netflix á næstunni og eru þegar komnir út. Þar er slegið saman vinsælum persónum úr Marvel myndasöguheiminum, sem áður hafa verið settar fram í vel heppnuðum sjónvarpsaðlögunum frá Netflix. Eru það persónurnar Jessica Jones, Daredevil, Luke Cage og Iron Fist sem mætast hér í sankallaðri ofurhetjuveislu, en þau sameinast um það klassíska markmið - að bjarga New York borg frá tortímingu.

The Gifted

Að auki verða þættirnir The Gifted frumsýndir á FOX þann 2. október. Gerast þættirnir í söguheimi þar sem ofurkraftar eru litnir hornauga, þar sem ótti og vantraust veldur sundrung í samfélagi manna og ofurhetja. Má vafalaust greina samfélagsádeilu þar að baki í ljósi pólitískra umbrota í framleiðslulandinu Bandaríkjunum. Emma Dumont og James Sterling fara með aðahlutverk, en auk þeirra er Stephen Moyer í stóru hlutverki, leikari sem fór með annað aðalhlutverkanna í vampíruþáttunum True Blood.

Black Lightning

Black Lightning úr DC sögubókunum verður síðan settur fram í samnefndum sjónvarpsþáttum. Black Lightning var ein af fyrstu svörtu ofurhetjunum í DC myndasögunum og í bandarískum poppkúltúr. Fyrsta þáttaröð telur 13 þætti og verður frumsýnd í byrjun árs 2018. Cress Williams úr sjónvarpsþáttunum Prison Break fer með hlutverk aðalpersónunnar Jefferson Pierce.

Herrens Veje

Ný dönsk þáttaröð sem segir frá fjölskyldu presta. Sagan er sneisafull af vísunum í Biblíuna, og má sjá það á efnistökum sögunnar sem snýr að átökum í fjölskyldu þar sem hjónin Jóhannes og Elísabet eiga synina August og Christian. Faðirinn drottnar yfir fjölskyldunni; gefur, elskar og refsar. August er í miklu uppáhaldi hjá Jóhannesi á meðan Christian veldur honum stöðugum vonbrigðum. Spennan innan fjölskyldunnar stigmagnast og endar í stórbrotnu uppgjöri sem skilar sér til áhorfenda í vandaðri þáttaröð sem sýnd verður á RÚV frá og með septembermánuði nk.

Alias Grace

Fyrir aðdáendur Handmaid‘s Tale kemur meira frá hinni mögnuðu skáldkonu Margaret Atwood. Þættirnir Alias Grace byggja á sannri sögu þjónustustúlkunnar Grace Marks, sem fluttist til Bandaríkjanna frá Írlandi og var dæmd til fangavistar árið 1843 fyrir morðið á húsbónda sínum Thomas Kinnear. Hugsanlegt er að Marks hafi verið saklaus af glæpnum, en tíu árum eftir atburðinn reynir læknirinn Simon Jordan að aðstoða Marks við að muna hvað raunverulega gerðist.

The Crossing

Það er óneitanlega þungt viðfangsefnið í þessu tímaflakksdrama um flóttamenn. 500 manns rekur á land, fjölskyldur og fólk á öllum aldri. Aðeins 47 komast lífs af en þau segjast vera flóttamenn, á flótta undan stríðshörmungum sem þó eiga sér ekki stað fyrr en eftir 250 ár. Sagan tekur á málefnum líðandi stundar út frá frumlegum vinkli, þó að klassísk stef læðist með, eins og lögreglustjóri með erfiða fortíð, þokkafullur rannsóknarlögreglumaður og örvæntingarfull móðir í leit að týndu barni. Stiklan gefur til kynna óþægilegt áhorf, en umgjörðin virkar, er aðlaðandi og er hér greinilega vandað til verks. 

Tengdar fréttir

Menningarefni

Þrjú hlaðvörp um sönn sakamál

Sjónvarp

Fjórða gullöld sjónvarpsins

Kvikmyndir

Fjórar framhaldsmyndir sem enginn átti von á

Sjónvarp

9 ógleymanleg sjónvarpsþáttastef