Fjölskylduvæn Handverkshátíð að Hrafnagili

11.08.2017 - 18:27
Mynd með færslu
 Mynd: Hildur H. List-Hönnun  -  Facebook
Handverkshátíðin í Eyjafirði stendur nú yfir í Hrafnagilsskóla í Eyjafjarðarsveit, og er hún hugsuð sem vettvangur fyrir handverksfólk víðs vegar af landinu. Hugmyndin að baki hátíðinni er að leiða fólk saman sem deilir sameiginlegri sýn, að efla íslenskt handverk og að tryggja að þekking á gömlu íslensku handverki færist milli kynslóða. Hátíðin hófst í gær, fimmtudaginn 10. ágúst og stendur fram á sunnudag.

„Það má ekki gleymast að hönnun er oft fjöldaframleidd en handverkið er einstakt,“ segir Tinna Bjarnadóttir klæðskeranemi, en hún er meðal þáttakenda á Handverkshátíð í Eyjafirði sem nú stendur yfir.

Tinna hefur komið á hátíðina síðastliðin þrjú ár, og segir alla umgjörð vera til sóma. „Ég tók í fyrsta sinn þátt árið 2015, þá vann ég sölubás ársins. Þetta eru rúmlega 100 sýningar held ég, og svo er þetta alveg skólalóðin og Landbúnaðarsýningin líka. Það er valið úr og þetta er mjög fjölbreytt. Þau velja inn fjölbreytileika og gæði. Og þeir sem ekki treysta sér til að vera með sölubás heila helgi geta leigt sölubás einn af þessum dögum. Það er meiri markaðsfílingur,“ segir Tinna.

Huggulegur andi

Tinna segir að aðgangseyrinum fylgi armband og þannig geti fólk heimsótt sýninguna aftur og aftur. „Mjög margir koma allavega tvisvar ef ekki oftar. Það er landbúnaðarsýningin, vélar og dót og dýr.“ Tinna segir jafnframt að hátíðin sé líklega mun fjölskylduvænni en aðrar sambærilegar hátíðir. „Af því að fólk getur komið aftur þá er andinn hérna svolítið huggulegur, allt er rólegra fyrir vikið.“ Tinna segir að hátíðin sé vel sótt, og sé það til dæmis vegna umferðar sem tengist Fiskideginum mikla á Dalvík.

Þemað í ár er tré

Þema hátíðarinnar í ár er tré, en sænski „heimilisiðnaðarráðunauturinn“ Kunt Östgård er sérlegur gestur á hátíðinni. Hann hefur komið að hátíðinni áður og í gegnum árin hefur hann útvegað hátíðinni sérfræðinga í þjóðlegu handverki. Verður Knut einn af sýnendum hátíðarinnar auk þess sem hann mun halda námskeið og fyrirlestra.

Á hátíðinni verður síðan sænsk farandssýning sem ber yfirskriftina UR BJÖRK eða Úr birki. 22 handverksmenn standa að sýningunni, en þáttakendur skiptu með sér heilu birkitré og fengu það hlutverk að nýta allt efnið „með frjálsum huga og höndum.“ Það tók hópinn 6 mánuði að vinna alla munina, en birkitréð var 25 metra hátt og 30 sentimetrar í þvermál. Var afraksturinn 400 hlutir.

8 ára börn í dyravörslu

Sérlegt hóf verður í kvöld, auk verðlaunaafhendingar fyrir veglegasta sölubásinn. Mun tónlistarmaðurinn Eyþór Ingi stýra veislunni auk þess sem nærsveitarmenn slá upp skemmtiatriðum.

Allt sveitarfélagið leggst á eitt um að gera hátíðina sem veglegasta og taka allir þátt. „Krakkarnir úr sveitinni eru hérna í gulum vestum í dyravörslu, alveg niður í 7-8 ára. Björgunarsveitin sér um matsöluna og kvenfélagið er hérna líka. Þetta er sveitarfélaginu til sóma, og samfélaginu öllu,“ segir Tinna.

 

Mynd með færslu
Nína Richter
vefritstjórn