Fjölónæmar lekandabakteríur ekki greinst hér

16.02.2016 - 16:16
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Í fréttatilkynningu frá sóttvarnarlækni kemur fram að fjölónæmar lekandabakteríur hafi ekki greinst á Íslandi á síðastliðnum árum. Guðrún Sigmundsdóttir, yfirlæknir sóttvarna hjá embætti Landlæknis, segir að hér hafi hins vegar greinst lekandabakteríur sem séu ónæmar fyrir einstaka tegundum sýklalyfja.

Karl G. Kristinsson, yfirlæknir á sýklafræðideild Landspítalans, sagði í sjónvarpsfréttum RÚV í gær að hér á landi fjölgi tilfellum þar sem fólk greinist með mjög ónæma lekandasýkla. Í frétt RÚV sagði Karl: „Það getur þýtt að meðferð takist ekki, allavega ekki í fyrstu skiptin, séu notuð þessi hefðbundnu lyf. Þau virka ekki og þá heldur viðkomandi áfram að vera sýktur og getur dreift henni og læknast ekki. Vandinn er sá að það er að aukast svo mikið ónæmið að þeir eru að verða fjölónæmir líka, eins og E-coli bakterían.“

Misskilningur á ferðinni

Guðrún Sigmundsdóttir telur málið byggt á misskilningi. „Það hafa vissulega greinst hér lekandabakteríur sem eru ónæmar fyrir kannski einni gerð sýklalyfja, en við höfum getað meðhöndlað öll slík tilfelli. Fjölónæmar lekandabakteríur, sem eru ónæmar fyrir einstaka sýklalyfjum, hafa hins vegar ekki greinst hér á landi til þessa.“

Í tilkynningunni frá sóttvarnalækni segir að fjölónæmi meðal lekandabaktería fari vaxandi víða erlendis og geti borist til Íslands með tíðum ferðalögum fólks á milli landa.

Þá segir ennfremur í tilkynningunni: „Lekandi og aðrir kynsjúkdómar geta haft alvarlegar afleiðingar og það er því full ástæða til að hvetja einstaklinga til ábyrgs kynlífs með notkun smokka.

Til að tryggja árangur meðferðar og vakta næmi hjá lekandabakteríunni verður að taka sýni í ræktun og næmispróf. Þetta á einnig við þegar lekandinn hefur verið staðfestur með greiningu erfðaefnis því sýklalyfjanæmi fæst ekki með þeirri greiningaraðferð.“

 

Ægir Þór Eysteinsson
Fréttastofa RÚV