Fjölmargar brotalamir í fráveitumálum

Tólf ár eru síðan öll þéttbýlissvæði áttu að vera komin með fullnægjandi skólphreinsun, eins eða tveggja þrepa en lítið hefur breyst. Árið 2014 var hlutfall óhreinsaðs skólps á Íslandi með því hæsta sem gerist í ríkjum OECD. Að minnsta kosti fjórðungur skólps fór óhreinsaður í sjóinn. Þetta kemur fram í nýrri stöðuskýrslu Umhverfisstofnunar. Skýrsluhöfundur segir að reglugerð um fráveitumál sé óljós og þvingunarákvæðum aldrei beitt. 

Þú sturtar niður og hvað gerist svo? Það er misjafnt eftir því hvar á landinu salernið er. 

Horfum til íbúa í þéttbýli. Árið 2014 fór skólp frá 64 þúsundum þeirra óhreinsað út í sjó. Þetta átti við um allar stærri fráveitur í þéttbýli á Vesturlandi, Vestfjörðum, Norðurlandi vestra og Norðurlandi eystra. Úrgangur frá 70 íbúum rennur óhreinsaður í grunnvatn, ekki er tilgreint í skýrslunni hvar það er. Um afdrif úrgangs frá 8388 manns er svo ekkert vitað. Á höfuðborgarsvæðinu eru hreinsistöðvar sem eiga að vera með eins þreps hreinsun. Þangað ratar skólp frá 161 þúsund íbúum.

Fulltrúi Sambands sveitarfélaga telur lítið hafa breyst frá 2014. Eitthvað hefur þó þokast. Að sögn fulltrúa Veitna er ný hreinsistöð á Akranesi komin í gagnið, og hreinsistöðvar verða teknar í gagnið í Borgarnesi og á Kjalarnesi á næstu vikum. Þá hefur Spegillinn heyrt af áformum á Akureyri og Selfossi. 

Telur eins þreps hreinsun litlu skila - áhrifin órannsökuð

Deilt er um hvað nákvæmlega felst í eins þreps hreinsun. Útlit er fyrir að hreinsistöðvarnar uppfylli ekki öll skilyrðin, hreinsi í raun lítið annað en rusl sem á ekki að vera í skólpinu yfirleitt, örplast rennur til dæmis óhindrað í gegnum síurnar en á ekki að gera það. Fráveitureglugerðin er óljós. Þar segir á einum stað að það nægi að sía skólpið til að uppfylla kröfur um fyrsta stigs hreinsun, á öðrum stað segir að sía verði burt ákveðið hlutfall lífræns efnis og svifagna. 

„Þó notuð sé sía þá virðist það ekki ná hreinsikröfunni, það á reyndar við um allar fráveitur að það á eftir að staðfesta hvort hreinsivirkin eru að hreinsa það sem þeim er ætlað að gera.“

Segir Tryggvi Þórðarson, höfundur stöðuskýrslunnar. Þetta þarf því að kanna betur. Eftirlit hefur ekki verið nógu gott og losunarmælingar hafa ekki staðist kröfur í miklum meirihluta tilvika. 

Mynd með færslu
 Mynd: rúv
Tryggvi Þórðarson, sérfræðingur hjá Umhverfisstofnun.

Lítil áhrif á lífríki en alltaf sýkingarhætta

Hreinsistöðvarnar á höfuðborgarsvæðinu dæla skólpinu nokkra kílómetra út í sjó og dreifa því þar, það er ef þær eru ekki bilaðar. Slíku er ekki að fagna víða annars staðar. Reglur kveða á um að skólpútrásir nái minnst fimm metra niður fyrir stórstraumsfjöruborð eða 20 metra út fyrir það. Einungis fjórðungur minni fráveitna uppfyllir þessi skilyrði en stærri fráveitur uppfylla þau í 87% tilfella. Tryggvi segir að óhreinsað skólp virðist lítil áhrif hafa á lífríki strandsvæða, sjórinn taki lengi við. 

„Það er ekkert sem bendir til þess að þetta séu mikil áhrif en það er alltaf sýkingarhætta af skólpi þannig að skólp sem er að þvælast í fjörum nálægt byggð, það er ekki hægt að mæla með því.“

Enn renna 11% skólps frá minni fráveitum í hafnir. Þá er saurgerlamengun sums staðar yfir mörkum.

Sæmi ekki fiskveiðiþjóð

Tryggvi segir að þó reglugerðin sé fengin frá Evrópusambandinu og ekki samin með Ísland í huga þó sé eðlilegt að þjóð sem byggir afkomu sína að miklu leyti á sjónum fylgi henni, sé ekki að dæla óhreinsuðu skólpi út í sjó. „Það bara samræmist ekki okkar hlutverki sem fiskveiðiþjóð.“

Mynd með færslu
 Mynd: Jón Þór Víglundsson  -  RÚV
Árið 2014 var fjórðungur skólps losaður beint í sjó og óljóst hvernig 5% skólps var meðhöndlað. Sums staðar eru reglur um lengd fráveitulagna ekki uppfylltar og skólpið skilar sér upp í fjöru.

Stöðuskýrsla Umhverfisstofnunar tekur til þróunarinnar frá því síðasta stöðuskýrsla kom út árið 2010 og fram til ársins 2014. Þeim sem búa við einhvers konar skólphreinsun fjölgaði einungis um 2 prósent og raunar óljóst hvort um raunverulega fjölgun er að ræða vegna óvissu í gögnum. En hvers vegna hefur ekkert meira gerst? Sveitarfélögin hafa haft 12 ár til að uppfylla reglugerðina.

Guðjón Bragason er sviðsstjóri hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga. „Forsagan er sú að árið 1995 voru sett lög um stuðning við fráveituframkvæmdir á vegum sveitarfélaga. Í því fólst að ríkið styrkti fráveituframkvæmdir um í kringum 20% af stofnkostnaði. Þessi stuðningur fjaraði svo út og lauk endanlega árið 2008 og frá þeim tíma hefur eiginlega orðið algert hlé í fráveituframkvæmdum. Efnahagshrunið skýrir ákveðinn hluta í þessu líka. Einn þáttur til viðbótar sem er vert að nefna er að sveitarfélögin hafa kallað ansi lengi eftir endurskoðun á reglugerð um fráveitur og skólp og tillögur að breytingum á þeirri reglugerð liggja fyrir núna."

Sveitarfélögin vilja til dæmis að viðmið um saurgerlamengun verði breytt, þau séu mun strangari hér en í ESB-ríkjum. 

„Allt spurning um forgangsröðun“

Tryggvi telur að allir sem að málaflokknum koma þurfi að taka sig á. Það hafi verið ákveðinn sofandaháttur í gangi. „Sveitarfélög bera fyrir sig peningaleysi en þetta er allt spurning um að forgangsraða peningum. Það er gert ráð fyrir holræsagjaldi sem á að fjármagna svona hluti. Það má setja svoleiðis gjald á og sveitarfélög hafa gert það. Ef það gerir það ekki þarf bara að taka á því máli eftir því sem hægt er en það á í sjálfu sér ekki að stoppa framkvæmdina."

Tryggvi segir að bregðist sveitarfélögin þurfi heilbrigðisnefndir að standa sig. Hann telur að það hversu óljós reglugerðin er skýri líka aðgerðaleysið að einhverju leyti, þvælist fyrir heilbrigðisnefndunum. „Mig grunar að það hafi talsvert að segja þegar menn vita ekki alveg hvaða kröfur er verið að gera, þetta stangast svolítið á í reglugerðinni."

Guðjón tekur undir það. 

Þvingunarákvæði færa peninga úr einum vasa í annan

Heilbrigðisnefndirnar geta beitt þvingunarákvæðum en hafa aldrei gert það. Þá er það svo að dagsektir beinast gegn sveitarfélögum og skila sér til sveitarstjórna, fara í raun úr einum vasa í annan. 

„Það má segja það já, en það eru fleiri möguleikar, til dæmis hægt að láta vinna verkið á kostnað þess vinnuskylda. En jafnvel þó að þetta sé svona einhver hringrás á fjármunum þá myndi það strax hafa áhrif að þessu væri beitt, vekja upp umræðu og setja sveitarfélagið í ákveðna stöðu.“

Minnihluti þeirra sem flytja eða taka á móti seyru er með starfsleyfi og sama máli gegnir um hreinsistöðvar, 21% þeirra er með starfsleyfi. Tryggvi veltir því upp hvort heilbrigðisnefndum finnist þetta kannski ekkert forgangsmál, sjórinn sé ekki skilgreindur sem viðkvæmur viðtaki og geti vel tekið við þessu.

Vöktun ábótavant 

Eitt skilyrði fyrir því að skilgreina megi strandsvæði sem síður viðkvæm er að þau séu vöktuð reglulega. Þessari vöktun var ábótavant á Akureyri þó Tryggvi telji að nú sé hún komin í lag. Þá segir hann sum sveitarfélög einfaldlega sleppa því að skilgreina viðtaka sem síður viðkvæma þrátt fyrir að vera með eins þreps hreinsun, þau uppfylla þá ekki skilyrði og ættu því að vera með tveggja þrepa hreinsun. 

Yfirumsjón en ekki höfuðábyrgð

Mynd með færslu
 Mynd: rúv
Umhverfisstofnun.

Umhverfisstofnun á að hafa yfirumsjón með framkvæmd reglugerðar um fráveitumál. Tryggvi segir ekki hægt að segja að Umhverfisstofnun beri höfuðábyrgð á stöðunni þar sem hún sinnir ekki eftirliti, skrifi bara skýrslur. Stofnunin hyggst þó bregðast við niðurstöðu nýju skýrslunnar með því að óska eftir úrbótatillögum frá sveitarfélögunum í þeirri von að koma hreyfingu á fráveitumálin. Það hefur ekki verið gert áður.

Öðlast kannski þvingunarúrræði eftir fjögur ár

Þá segir í skýrslunni að hægt verði að taka á vandanum með aðgerðaáætlun sem gera á samkvæmt lögum um stjórn vatnamála. Hún á að tryggja að allar reglugerðir á sviði vatnsverndar séu virtar, reglugerð um fráveitumál meðtalin. „Í tengslum við þessa aðgerðaáætlun öðlumst við þvingunarúrræði gagnvart heilbrigðisnefndum og sveitarfélögum.“ 

Þessi aðgerðaáætlun verður þó ekki tilbúin fyrr en í fyrsta lagi árið 2021. Í millitíðinni telur Tryggvi fulla ástæðu til þess að endurskoða kerfið, skýra ábyrgðaskiptingu milli sveitarfélaga, fyrirtækja og eftirlitsaðila. 

Mynd með færslu
Arnhildur Hálfdánardóttir
Fréttastofa RÚV
Spegillinn
Þessi þáttur er í hlaðvarpi