Fita veldur flóðum og óskunda í holræsum

09.01.2016 - 09:40
Heilbrigðiseftirlit Austurlands hefur ítrekað minnt fyrirtæki á Egilsstöðum á að setja svokallaðar fitu- og olíugildrur í frárennslið. Fita veldur miklum óskunda í holræsum þar sem hún safnast í tappa og þrengingar sem auka líkur tjóni í stórrigningum.

Íbúar á Austurlandi fengu að kynnast miklu vatnsveðri fyrir áramót og á Egilsstöðum flæddi upp úr klósettum. Við slíkar aðstæður er mikilvægt að engar hindranir séu í holræsum og þar hefur hegðun íbúanna mikil áhrif. Á Egilsstöðum fer frárennsli í gegnum hreinsivirki og þar sést greinlega ef fita er losuð í frárennslið.

Fita kæfir mikilvægar örverur í hreinsivirkjum

Óskar Vignir Bjarnason er framkvæmdastjóri Bólholts sem rekur hreinsivirkin fyrir Fljótsdalshérað. „Einhver brögð eru að því að ekki eru fitugildrur á öllum þjónustu- og veitingastöðum og ef það er þá lendir fita út í fráveitukerfið sem kemur svo til með að safnast upp, valda stíflum og vandræðum og þar af leiðandi auknum kostnaði. Fitan er þannig að hún kæfir í rauninni örverurnar sem eru vinnugæjarnir í hreinsivirkjunum. Gerir það að verkum að þeir ná ekki súrefni þannig að þá bara kafna örverurnar,“ segir Óskar.

Hangikjötsflotið á ekki erindi í vaskinn

Fitugildrurnar þarf svo að hreinsa reglulega annars hætta þær að virka. Kæruleysi við eldhúsvaskinn getur valdið því að fitutappar og þrengingar hlaðast upp og takmarka afkastagetu holræsanna. „Fitutappar eru þannig að þeir umvefja allt sorpið og ruslið í lögninni. Þeir safna í sig eyrnapinnaplasti og tannþræði og öllu, setjast í toppinn á lögnunum og valda þrengingum. Þeir fljóta einhvers staðar um í kerfinu ekki endilega bara hjá þeim sem setti fituna út í kerfið heldur fara lengra. Svo þegar reynir á kerfið einhverra hluta vegna, út af stórrigningu eða mikilli hláku þá flæðir upp úr niðurföllum. Það flæðir inn í kjallara og hýbýli fólks og veldur stórtjóni,“ segir Óskar. 

Mynd með færslu
Rúnar Snær Reynisson
Fréttastofa RÚV