Fimm franskir frambjóðendur

20.03.2017 - 17:07
Mynd með færslu
 Mynd: RUV
Engin lognmolla hefur ríkt í aðdraganda forsetakosninganna í Frakklandi og ásakanir um spillingu og þjóðernispopúlisma hafa skotið upp kollinum. Þeir fimm forsetaframbjóðendur sem mælast með mest fylgi mættust í fyrsta sinn í sjónvarpskappræðum í gærkvöld.

Ellefu eru í forsetaframboði að þessu sinni. Ljóst var að nýr einstaklingur tæki við stjórnartaumunum eftir að Francois Hollande, forseti Frakklands, sóttist ekki eftir endurkjöri. Skoðanakannanir gáfu til kynna að hann kæmi þar ekki til með að hafa erindi sem erfiði. Þau fimm sem eiga mestu fylgi að fagna samkvæmt skoðanakönnunum mættust í sjónvarpskappræðum í gærkvöld. 

 

Mynd með færslu
 Mynd: RUV

François Fillon býður sig fram fyrir hönd Repúblikanaflokksins og boðar meðal annars aukna hörku í baráttu gegn öfgafullum íslamistum. Hann var framan af talinn líklegastur til sigurs en ásakanir um frændhygli hans og launagreiðslur til eiginkonu hans og barna meðan hann gengdi þingmennsku hafa kostað hann fylgi. Honum var birt ákæra fyrr í mánuðinum fyrir að hafa misnotað opinbert fé. Sjálfur hefur Fillon neitað ásökununum og hyggst halda kosningabaráttunni órauður áfram.

Mynd með færslu
 Mynd: RUV

Marine Le Pen tók við stjórnartaumum í Þjóðfylkingunni af föður sínum árið 2011 og varð í þriðja sæti í forsetakosningunum árið eftir. Le Pen var svipt þinghelgi á Evrópuþinginu fyrr á árinu vegna rannsóknar frönsku lögreglunnar á færslum hennar á Twitter, þar sem hún birti myndir af grimmdarverkum vígamanna íslamska ríkisins. Sama refsing beið hennar árið 2013 þegar hún sagði að múslimar við bænahald á götum úti minntu hana á hernám þýskra nasista í seinni heimsstyrjöldinni. Hún boðar þjóðaratkvæðagreiðslu um áframahaldandi aðild Frakka að Evrópusambandinu.

Mynd með færslu
 Mynd: RUV

Emmanuel Macron fylgir fast á hæla Le Pen þegar fylgi er annars vegar og hefur möguleika á að verða yngsti forseti í sögu Frakklands. Macron var fjárfestingabankamaður, vann sem efnahagsráðgjafi Hollande og varð efnahagsmálaráðherra árið 2014. Macron var ráðherra í stjórn Sósíalista, en býður fram undir hatti En Marche-hreyfingarinnar. Talið er að frammistaða hans í kappræðum kvöldsins komi til með að ráða þónokkru um fylgi hans, sem hefur rokkað. 

Mynd með færslu
 Mynd: RUV

Fyrrverandi menntamálaráðherrann Benoît Hamon býður sig fram fyrir Sósíalistaflokkinn. Hann hafði betur gegn fyrrum forsætisráðherranum Manuel Valls í forvali flokksins fyrir kosningarnar. Hann hefur verið gagnrýninn á meinta spillingu mótframbjóðenda sinna.

Mynd með færslu
 Mynd: RUV

 

Þeir Jean-Luc Mélenchon berjast að mörgu leyti um atkvæði sömu kjósendanna. Þetta er í annað sinn sem Mélenchon býður sig fram til forseta, en fékk í síðustu kosningum um 11% atkvæða. Hann virðist vera eiga svipuðu fylgi að fagna að þessu sinni.

Gengið verður til kosninga þann 23.apríl næstkomandi. Í kjölfarið verður svo kosið á milli tveggja efstu frambjóðendanna þann 7. maí. 

 

Birta Björnsdóttir
Fréttastofa RÚV