Fast 8 kemur með 2,6 milljarða til landsins

16.03.2016 - 09:25
Mynd með færslu
 Mynd: Björgvin Kolbeinsson  -  RÚV
Áætlaður framleiðslukostnaður stórmyndarinnar Fast 8, sem nú er í tökum við Mývatn, er 2,6 milljarðar hér á landi. Þegar hefur verið sótt um endurgreiðslu til iðnaðarráðuneytisins upp á 520 milljónir vegna verkefnsins. Ráðuneytið hefur tekið við umsóknum um endurgreiðslur vegna kvikmyndaverkefna á þessu ári upp á 1,3 milljarð - Fast 8 er því með fjörutíu prósent af þeirri upphæð.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í frumvarpi Ragnheiðar Elínar Árnadóttur, iðnaðarráðherra, þar sem lagt er til að endurgreiðsla vegna framleiðslu kvikmynda hér á landi hækki úr 20 prósentum í 25 prósent. Lögin eiga að öðlast gildi 31. desember. en þeim er ætlað að bregðast við aukinni samkeppni, meðal annars frá Noregi.

Í greinargerð með frumvarpinu er varpað ljósi á hversu stórt verkefni Fast 8 er. Endurgreiðslan er talin vera 75 prósentum hærri en endurgreiðslur vegna þess verkefnis sem næst kemst í umsvifum frá því að endurgreiðslukerfinu var komið á. 

Þau erlendu verkefni sem hæstu upphæðina hafa fengið í gegnum endurgreiðslukerfið eru meðal annars The Secret Life of Walter Mitty með Ben Stiller - endurgreiðslan vegna þess verkefnis nam 275 milljónum og miðað við 20 prósent endurgreiðslu nam framleiðslukostnaðurinn hér á landi því 1,3 milljörðum.  Fast 8 er því helmingi stærri en sú kvikmynd sem þótti þó mjög umfangsmikil.

Til samanburðar má nefna að endurgreiðslur vegna kvikmyndaframleiðslu á síðasta ári námu 796 milljónum króna.

Tökurnar á Fast 8 hafa vakið mikla athygli, ekki síst fyrir þær sakir að hingað til lands hafa verið flutt alls kyns tæki og tól sem notuð verða við gerð myndarinnar.  Reiknað er með að þær standi í 8 vikur.

Þótt öryggisgæsla í kringum myndina hafi verið mikil þá birti F Gary Gray, leikstjóri myndarinnar, nokkrar myndir af tökustaðnum þar sem áhættuleikarar léku listir sínar. 

 

My stunt coordinator Jack Gill taming the #ice in #iceland #fastandfurious8 #ff8 #behindthescenes -6 degrees

A video posted by F Gary Gray (@fgarygray) on