Fagnaði sextugsafmæli við dómnefndarstörf

13.05.2017 - 16:00
Mynd með færslu
Starfsfólk dagskrárdeildar sjónvarpsins færði Helgu afmælisköku og blóm í tilefni dagsins.  Mynd: RÚV
Helga Möller fagnaði sextugsafmæli sínu í gær við dómnefndarstörf fyrir Eurovision í Efstaleiti. Hún söng, eins og flestir sjálfsagt vita, fyrsta lagið sem fór fyrir Íslands hönd í Eurovision árið 1986.

Í dómnefndinni í ár eru, auk Helgu, Pétur Örn Guðmundsson söngvari og lagahöfundur, Stefanía Svavarsdóttir söngkona, Kristján Viðar Haraldsson úr Greifunum og Hildur Guðný Þórhallsdóttir tónmenntakennari. 

Niðurstöður dómnefndar vega helming á móti atkvæðum í símakosningum. Þau voru einnig að störfum á þriðjudag, þegar fyrri undankeppnin fór fram, því þá höfðu Íslendingar einnig atkvæðisrétt rétt eins og í kvöld.

Dómararennslið var klukkan sjö í gærkvöld og var röð flytjenda eins og hún verður í kvöld. Dagskráin og röð flytjenda var sú sama og hún verður í kvöld og flytjendur sungu fyrir framan fullan sal áheyrenda.  Úrslitakeppnin verður í Kænugarði í Úkraínu klukkan 19 í kvöld og verður sýnt frá henni í beinni útsendingu RÚV. 

Önnur Eurovision-kempa, Björgvin Halldórsson, kynnir stigin fyrir íslensku dómnefndina í kvöld. Svala, dóttir hans, söng framlag Íslands í ár en komst ekki áfram úr undankeppninni á þriðjudag. Björgvin fór fyrir Íslands hönd árið 1995 með lagið Núna.