Fæðispeningar ekki sambærilegir dagpeningum

16.02.2017 - 16:40
Héraðsdómslögmaður segist ekki trúa því að settar verði sérstakar frádráttarreglur fyrir sjómenn vegna fæðispeninga sem útgerðin greiðir þeim. Greiðslur dagpeninga séu ekki sambærilegar fæðispeningunum sem sjómenn fá.

Í sjómannadeilunni virðist nú allt standa eða falla með því hvort fæðispeningar sjómanna eigi að verða skattfrjálsir eða ekki. Sjómenn og útgerðarmenn eru þeirrar skoðunar að fæðispeningar eigi að fá sömu skattalegu meðferð og dagpeningar.

En hvað eru fæðispeningar?  Útgerðin greiðir sjómönnum fæðispeninga og samkvæmt samningum eru þeir nú 1.681 króna á dag. Sjómenn greiða svo fæðiskostnað af launum sínum sem getur til dæmis verið 2.200 krónur á dag. Krafan er að fæðispeningarnir, 1.681 króna, nýtist að fullu til að greiða upp í fæðiskostnaðinn sem reyndar getur verið mismunandi og ræðst af því hvernig kostur sjómanna er. Skatturinn tekur hins vegar sitt af fæðispeningum og af þeim standa aðeins um 1000 krónur eftir skatt. Indriði Þorláksson fyrrverandi ríkisskattstjóri sagði í hádegisfréttum að engin skattaleg rök væru fyrir því að fæðispeningar yrðu undanþegnir skatti.

Svona kröfur eru að mínu mati gjörsamlega út úr korti.

Snýst um tilfallandi ferðir

Rimman snýst um að fæðispeningar sjómanna fái sömu skattalegu meðferð og dagpeningar sem eru undanþegnir skatti. En hver er hugsunin á bakvið þá? Vala Valtýsdóttir, héraðsdómslögmaður hjá Lögfræðistofu Reykjavíkur, segir að dagpeningar séu greiddir til að bæta starfsmönnum launagreiðanda upp þann kostnað sem hlýst af því að þeir sinni störfum utan eða langt frá heimilum sínum í tilfallandi ferðum frá vinnustað.

„Til dæmir hefur fólk kannski meiri kostnað af því borða á hótelum eða veitingastöðum ef það er t.d. sent frá Akureyri og þarf að fara á fund í Reykjavík. Þá kostar það meira að borða á veitingastöðum heldur en heima hjá sér. Hugsunin er sú að það sé verið að bæta upp þennan kostnað sem starfsmaðurinn verður fyrir vegna þessarar tilfallandi ferðar,“ segir Vala.

Allir starfsmenn, bæði hjá hinu opinbera og á almennum vinnumarkaði eiga rétt á dagpeningum. Samkvæmt upplýsingum frá embætti ríkiskattstjóra er fjórðungur þeirra dagpeninga sem taldir eru fram vegna opinberra starfsmanna og afgangurinn vegna starfsmanna á almennum vinnumarkaði. Það er er annað hvort hægt að fá greidda dagpeninga eða framvísa reikningum vegna kostnaðar sem vinnuveitandinn greiðir. En viðmiðið er að dagpeningar eru greiddir vegna tilfallandi ferða.

„Ef viðkomandi starfsmaður vinnur í Reykjavík en býr í t.d. Hveragerði eða á Suðurnesjum sem er ekki óalgengt og hefur þar af leiðandi verulegan kostnað ekki bara vegna þess að borða utan heimilis heldur líka vegna keyrslu þá hefur sá starfsmaður eða launþegi engan frádrátt,“ segir Vala.

Ekki sambærilegt

Rök sjómanna eru meðal annars þau að þeir starfi langtímum utan heimilis. Þeir greiði fyrir fæði en fái fæðispeninga greidda á móti frá útgerðinni. Það sé sambærilegt við dagpeningakerfið sem byggist á því að greiða kostnað sem hlýst þegar aðrir launamenn starfa fjarri heimilum sínum.

„Ég get ekki sagt að þetta sé sambærilegt. Þarna er ekki um tilfallandi ferðir að ræða. Þeirra vinnustaður er skipið eða báturinn. Þeir vinna ekki neins staðar annars staðar. Ekki frekar en vörubílstjórinn eða sá sem keyrir ísbíl. Eins og skipið geta farartæki verið vinnustaður. Það eru ekki tilfallandi ferðir.“

En er ekki  staða sjómanna samt sem áður að einhverju leyti frábrugðin t.d. stöðu vörubílstjórans?

„Menn geta að sjálfsögðu deilt um það og örugglega hefur hver stétt sína sérstöðu. Fólk sem fær ekki vinnu hjá sínu lögheimili og þarf að keyra t.d. í einn, tvo klukkutíma á vinnustað fram og til baka. Það er verulegur kostnaður og það er líka sérstakt. Þessi hópur fær heldur engan frádrátt frá sköttum. Það er hins vegar annað mál hvort svo ætti að vera en það er ekki svo. Það eru engar reglur um það. Reglurnar eru skýrar varðandi dagpeninga um tilfallandi ferðir. Það á ekki við í þessu tilviki frekar en þeirra sem vinna annars staðar en nálægt sínu lögheimili,“ segir Vala Valtýsdóttir.

Trúi ekki að settar verðir sérreglur

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir sjávarútvegsráðherra lýsti því yfir í gærkvöldi, eftir fund með sjómönnum og útgerðarmönnum, að hún sé reiðubúin að láta fara fram heildstæða skoðun á fæðispeningum og dagpeningum almennt á vinnumarkaði. Sjómenn segja að þessi yfirlýsing nægi ekki til að leysa deiluna. Þeir vilja fá viðurkenningu stjórnvalda á því að fæðispeningar njóti sömu meðferðar og dagpeningar. En hvaða áhrif hefði það ef stjórnvöld gengju að kröfum sjómanna og útgerðarmanna? Vala segist ekki vita hvernig stjórnmálamenn hugsa. 

„Ég trúi því ekki að það verði settar einhverjar sérreglur um sjómenn. Kannski er tímabært að setja einhverjar reglur, frádráttar- og ívilnunarreglur, fyrir þá sem hafa verulegan kostnað af því að fara til vinnu langan veg. Það að menn setji reglur sem eru málefnalegar og gagnsæjar og eiga við um alla er bara stjórnmálamanna að ákveða. Það er ekkert við því að segja,“ segir Vala. 
 

 

Mynd með færslu
Arnar Páll Hauksson
Fréttastofa RÚV
Spegillinn
Þessi þáttur er í hlaðvarpi