Fá alltaf tveggja daga gamlan mat

15.01.2016 - 13:49
Þórunn Sveinbjörnsdóttir, formaður Félags eldri borgara í Reykjavík og nágrenni
 Mynd: ruv
Fólk sem nýtir sér matarheimsendingu velferðarsviðs Reykjavíkurborgar fær alltaf kaldan tveggja daga gamlan mat. Eldri borgarar sem missa mötuneytisþjónustu um helgar þurfa því að borða sama mat á laugardegi og sunnudegi og var á fimmtudegi og föstudegi.

Auk þess missa þau af sunnudagssteikinni en yfirleitt er veglegri matur í boði þá, ef marka má þá matseðla sem nú liggja fyrir á vef Reykjavíkurborgar. Svo sem hangikjöt, hamborgarhryggur, kjúklingabringur eða snitsel.

Í desember greindi RÚV frá því að ekki yrði áfram boðið upp á heitan mat um helgar í Eirborgum í Grafarvogi. Þess í stað gefst eldri borgurum kostur á að panta kaldan tveggja daga gamlan mat og hita upp sjálfir. Það þýðir að þeir sem borðuðu í mötuneytinu á fimmtudegi borða sama mat á laugardegi. Í stað þess að að fá svo heitan mat á sunnudegi er í boði kaldur matur frá föstudegi.

Í samtali við RÚV í desember, sagði Þórunn Sveinbjörnsdóttir formaður Félags eldri borgara í Reykjavík; „Það er náttúrulega víðar sem þetta er vandamál þannig að það verður að finna einhverja lausn gagnvart því fólki sem er að eldast hér í borginni, er á háum aldri eða veikt, að við getum tryggt að það lendi ekki í vandræðum með mat um helgar. Það verður bara að finna lausn á því.“ 

Í fréttum Stöðvar 2 í gær var rætt við þá sem nýta sér þjónustu mötuneytis Eirborga. Þar kom fram að eldri borgarar segja borgina líta fram hjá mikilvægasta þætti þjónustunnar, að njóta félagsskapar hvort annars.

„Lengstu dagar sem ég hef lifað það voru dagarnir tveir um daginn, laugardagur og sunnudagur. Þetta er svo óbærilegt, að sjá enga manneskju allan daginn“, sagði Sigrún Þorleifsdóttir, í fréttum Stöðvar 2.

Mynd með færslu
Ásgeir Jónsson
Fréttastofa RÚV