Eygló vonsvikin með Öryrkjabandalagið

09.10.2016 - 21:24
Skortur á samstarfsvilja Öryrkjabandalagsins við almannatrygginganefnd er ástæða þess að fyrirhugaðar breytingar á lögum um almannatryggingar snúa aðallega að eldri borgurum. Þetta segir félags- og húsnæðismálaráðherra.

Ríkisstjórnin kynnti fyrir helgi tillögur um breytingar á lögum um almannatryggingar. Þar er meðal annars kveðið á um að lágmarksbætur einstæðra eldri borgara verði 300 þúsund krónur frá 1. janúar 2018 og frítekjumarki verði komið á. Þá er einnig lagt til að örorkulífeyrir hækki upp í 300 þúsund krónur, en aðeins til þeirra sem fá sérstaka framfærsluuppbót. Ellen Calmon, formaður Öryrkjabandalagsins, gagnrýndi ákvörðun ríkisstjórnarinnar í gær. Hún sé villandi þar sem örorkulífeyrisþegar með litla starfsgetu hafi engan fjárhagslegan ávinning af hækkun grunnframfærslunnar. 

Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, segir þó að þótt breytingarnar snúi aðallega að eldri borgurum séu öryrkjum tryggðar sambærilegar kjarabætur og fólki á vinnumarkaði, þar sem kauptrygging á vinnumarkaði nái einnig lágmarkslaunum. 

„Þarna erum við að horfa til þeirra sem hafa allra minnst í kerfinu og standa vörð um þá, en ég vona svo sannarlega að við getum náð saman um sambærilegar kerfisbreytingar þar sem við erum að tala um milljarða sem öryrkjar geta fengið á grundvelli þeirra tillagna og hugmynda sem menn hafa verið að tala um,“ segir Eygló.

Vinna almannatrygginganefndar og Öryrkjabandalagsins sigldi í strand og því fór sem fór, segir Eygló.

„Það voru sár vonbrigði á sínum tíma að Öryrkjabandalagið skyldi neita að koma að vinnu við gerð að kerfisbreytingu fyrir öryrkja, sambærilegar kerfisbreytingar, og við erum nú að sjá verða að veruleika gagnvart eldri borgurum,“ segir Eygló.

Eygló vonast til þess að Öryrkjabandalgið sé tilbúið að setjast aftur niður að borðum, eftir kosningar, svo hægt sé að leggja fram sambærilegar breytingar á almannatryggingakerfinu, þar sem undir séu milljarðar handa öryrkjum. Ólíkir aðilar þurfi að geta mæst á miðri leið. 

„Það gerði Landssamband eldri borgara, var tilbúið til að fylgja eftir tillögum, jafnvel þótt það hafi verið athugasemdir varðandi þær og eru þar af leiðandi að tryggja sínum félagsmönnum grundvallarbreytingar og verulega aukinn stuðning. Öryrkjabandalagið neitaði hins vegar að koma að vinnu varðandi frumvarp og það voru mér mikil vonbrigði.“

 

Mynd með færslu
Guðmundur Björn Þorbjörnsson
Fréttastofa RÚV