Erdogan hjá Trump: Eindrægni og ágreiningur

17.05.2017 - 04:58
epa05968184 US President Donald J. Trump (R) shakes hands with Turkish President Recep Tayyip Erdogan (L) in the Roosevelt Room where they issued a joint statement following their meeting at the White House in Washington, DC, USA, 16 May 2017. Trump and
 Mynd: EPA  -  EPA POOL
Donald Trump, Bandaríkjaforseti, og starfsbróðir hans frá Tyrklandi, Recep Tayyip Erdogan, funduðu í Hvíta húsinu í gær. Að fundi loknum lögðu þeir mikla áherslu á samstarf og samstöðu ríkjanna tveggja. Þó fór ekki framhjá neinum að djúpstæður ágreiningur er á milli stjórnvalda í Washington og Ankara þar sem Kúrdar og þátttaka þeirra í Sýrlandsstríðinu eru annars vegar.

„Algjörlega óásættanlegt“

Erdogan sagði það „algjörlega óásættanlegt" að Bandaríkjamenn teldu kúrdísku bardagasveitirnar YPG til bandamanna sinna og hygðust halda áfram að sjá þeim fyrir vopnum. Tyrklandsstjórn lítur á YPG sem anga af hinum vopnaða og bannaða Verkamannaflokki Kúrda, PKK, sem flokkaður er sem hryðjuverkahreyfing og á í yfirlýstu stríði við Tyrki.

Bandaríkjastjórn hefur hins vegar flokkað YPG sem sjálfstæða hreyfingu, óviðkomandi PKK, og lítur á þessar bardagasveitir Kúrda sem mikilvægan bandamann í Sýrlandsstríðinu, einkum í sókninni að háborg Íslamska ríkisins, Raqqa. Á fréttamannafundi að loknum viðræðum forsetanna tveggja sagði Erdogan að Tyrklandsstjórn legði ríka áherslu á að berjast gegn öllum hryðjuverkahreyfingum á svæðinu og að enginn greinarmunur yrði gerður þar á.

Trump forðaðist að minnast á samstarfið við og vopnasöluna til YPG en lagði þeim mun meiri áherslu á að prísa hið góða samband ríkjanna og sagði Bandaríkin styðja Tyrki í baráttu þeirra við „hryðjuverkasamtök á borð við Íslamska ríkið og PKK."

Gülen enn í Bandaríkjunum

Trump er eini þjóðarleiðtoginn á Vesturlöndum sem sendi Erdogan formlegar heillaóskir eftir að úrslit þjóðaratkvæðagreiðslunnar um aukin völd Tyrklandsforseta lágu fyrir. Hafi þetta vakið vonir Erdogans og Ankara-stjórnarinnar um enn nánari tengsl og betri samvinnu við risann í vestri hafa þær að líkindum kulnað verulega þegar Bandaríkjastjórn gaf grænt ljós á að sjá YPG fyrir umtalsverðu vopnabúri.

Annað mál sem skyggir á samskipti ríkjanna er framsalskrafa Tyrkja á hendur útlagaklerkinum Fethullah Gülen, sem tyrknesk yfirvöld telja manninn á bak við hina misheppnuðu valdaránstilraun sem gerð var í Tyrklandi í fyrra. Gülen býr í Pennsylvaníu í Bandaríkjunum og hefur Erdogan þrýst á um framsal hans mánuðum saman. Hann hélt uppteknum hætti á fundi forsetanna í gær og segist hafa sagt Trump það vafningalaust að hann vænti þess að Gülen yrði framseldur til Tyrklands fyrr en síðar. Hvorki Trump né ráðherrar í stjórn hans hafa tekið afstöðu til framsalskröfunnar enn sem komið er. 
 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV