Enska fram yfir íslensku

01.03.2016 - 11:32
Á upplýsingaskiltum í flugstöð Leifs Eiríkssonar er enska feitletruð og sett framar eða ofar en íslenska. Þar er t.d. feitletrað toilets á ensku en íslenska snyrtingin kemur hálfhnípin á eftir. Upplýsingafulltrúi Isavia sagði í fréttum að þetta væri gert vegna þess að það færu svo miklu fleiri útlendingar um flugvöllinn en Íslendingar.

Kristján Sigurjónsson, sem stýrir vefnum túristi.is, kannaði málið á alþjóðaflugvöllum annars staðar á Norðurlöndunum og fékk þær upplýsingar að í Kaupmannahöfn, Ósló og Stokkhólmi sé heimamálið alltaf á undan og svo komi enska. Í Finnlandi, þar sem eru tvö opinber mál, finnska og sænska, komi bæði á undan ensku á upplýsingaskiltum. Upplýsingafulltrúinn hjá Finnavia lagði til að þessu yrði breytt á Keflavíkurflugvelli þegar búið verður að stækka flugstöðina.  Danski fulltrúinn benti auk þess á að á alþjóðaflugvöllum í Þýskalandi, Frakklandi og á Spáni væri heimamálið alltaf fyrst og svo kæmi enska.

Afmæli á hlaupárs, afmæli eftir dauðann, afmæli viðburða

Þeir sem eiga afmæli á hlaupársdag eiga bara afmælisdag á fjögurra ára fresti. Það þýðir ekki að þeir eldist hægar en við hin eins og algengt er að halda fram, jafnvel þótt einhverjum þætti það eftirsóknarvert. Samt er oft talað þannig og t.d. sagt um manneskju sem fæddist 1992 að hún sé sex ára. Því er rétt að hafa í huga að allir eldast um 365 daga á einu ári, nema á hlaupári, þá eldumst við öll um 366 daga. Og þá gildir einu hvenær afmælisdaginn ber upp. Þeir sem fæðast á hlaupársdegi fá samt sem áður ekki að njóta þess að eiga afmælisdag nema á fjögurra ára fresti.

Þá er dálítið undarlegt þegar talað er um afmælisdaga látins fólks, að tala um fæðingarafmæli. Afmæli er alltaf merki um að einmitt nú sé ákveðinn árafjöldi liðinn frá því að einhver fæddist. Miklu nær er því að segja að því sé t.d. fagnað að svo og svo mörg ár séu liðin frá því að einhver fæddist. Stundum er talað um dánarafmæli. Um það eigum við líka orðið ártíð. Þegar tíu ár eru liðin frá andláti hans á hann tíu ára ártíð.

Stundum eru búin til skrýtin orð og orðasambönd til að tala um afmæli tiltekinna viðburða. Ef til vill er það fyrir áhrif frá orðum eins og brúðkaupsafmæli. Á síðasta ári var t.d. mikið talað um  100 ára kosningaréttarafmæli kvenna sem er merkileg samsuða. Miklu nær væri að tala um 100 ára afmæli kosningaréttar kvenna. Eða að hundrað ár væru liðin frá því að konur fengu kosningarétt.

Mynd með færslu
Anna Sigríður Þráinsdóttir
málfarsráðunautur
Morgunútvarpið
Þessi þáttur er í hlaðvarpi