Enn dregst afnám Obamacare

16.07.2017 - 06:49
epa05996792 US Senator from Arizona John McCain is seen ahead of a meeting with Australian Foreign Minister Julie Bishop (not pictured) at Parliament House in Canberra, Australian Capital Territory, Australia, 29 May 2017. McCain is visiting Australia for
 Mynd: EPA
Atkvæðagreiðslu í öldungadeild Bandaríkjaþings um nýja heilbrigðis- og tryggingalöggjöf í stað Obamacare hefur enn verið frestað. Mitch McConnell, leiðtogi Repúblikana í öldungadeildinni, staðfesti þetta síðdegis í gær. Ætlunin var að taka lagabálkinn til afgreiðslu í næstu viku en nú hefur því verið frestað um óákveðinn tíma. Ástæða seinkunarinnar er veikindi Johns McCains, sem hefur lýst sig fylgjandi frumvarpinu í þeirri mynd sem það er nú.

Hann er hins vegar í veikindaleyfi og meirihluti Repúblikana fyrir nýju lögunum er svo tæpur að án hans atkvæðis hafa þeir ekki þingstyrk til að koma þeim í gegn. McCain fór í aðgerð vegna blóðtappa við auga á föstudag. Haft er eftir læknum að aðgerðin hafi gengið að óskum og talsmaður McCains segir hann á góðum batavegi. Hann hyggist þó jafna sig betur í faðmi fjölskyldunnar á heimili sínu í Arizona fram eftir vikunni áður en hann snýr aftur til Washington. 

Afnám heilbrigðis- og tryggingalöggjafarinnar sem Barack Obama kom í gegn 2010 og almennt gengur undir heitinu Obamacare er eitt helsta metnaðarmál Trump Bandaríkjaforseta og mikið hjartans mál meirihluta Repúblikana í báðum þingdeildum. Það hefur þó ekki gengið þrautalaust.

Fyrra frumvarp Trump-stjórnarinnar að lagabálki sem átti að koma í stað Obamacare var dregið til baka áður en það var lagt fyrir fulltrúadeild þingsins í mars síðastliðnum, þar sem fyrir lá að ekki var meirihlutastuðningur fyrir því. Eftir langar og strangar samningaviðræður og miklar breytingar var það lagt fyrir fulltrúadeildina að nýju í maí, og fékk þá brautargengi. Öldungadeildarþingmenn lýstu þó miklum efasemdum um ágæti þess og við tók frekari vinna við lagabálkinn, í því augnamiði að tryggja því meirihluta í öldungadeildinni.

Frumvarpið sem nú liggur fyrir 100 manna öldungadeildinni er afrakstur gagngerrar endurskoðunar og mikilla málamiðlana. Í júní taldi McConnell sig hafa gert nóg til að sannfæra sitt fólk og hugði á atkvæðagreiðslu. Hann komst fljótlega að því að hann hafði misreiknað sig, frestaði framlagningu frumvarpsins og enn var tekið til við breytingar og samningabrall. Engu að síður eru enn uppi miklar efasemdir um ágæti frumvarpsins meðal hófsamra og íhaldssamra Repúblikana, sem hafa áhyggjur af því að það muni koma harkalega niður á velferð milljóna borgara, einkum þeim sem minna mega sín. Og Demókratar standa sem einn maður gegn fyrirhuguðum breytingum. 

Þetta þýðir að McConnell þarf atkvæði minnst 50 af 52 öldungadeildarþingmönnum Repúblikana - og tveir þeirra hafa þegar lýst því yfir að þeir muni greiða atkvæði gegn frumvarpinu. Því er ekki annað í stöðunni en að bíða þess að McCain mæti til þings á ný.

Fari allt samkvæmt bókinni þegar þar að kemur og 50 greiði atkvæði með frumvarpinu en 50 á móti kemur það í hlut varaforsetans Mike Pence, sem jafnframt er forseti öldungadeildarinnar þótt ekki sé hann öldungadeildarþingmaður, að greiða oddaatkvæði, eins og lög kveða á um í tilfelli sem þessu.