Enn bið eftir frekari ákvörðun um loðnukvóta

11.01.2016 - 13:36
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV  -  Björgvin Kolbeinsson
Mælingar á rannsóknarskipi Hafrannsóknastofnunar norður af landinu síðustu daga hafa staðfest að loðna er á allstóru svæði úti af Vestfjörðum og vestanverðu Norðurlandi. Ekki liggja fyrir niðurstöður um hversu mikil loðna þetta er.

Rannsóknarskipið Árni Friðriksson hefur nú verið við loðnumælingar frá því á föstudag og Sighvatur Bjarnason VE er rannsóknarskipinu til aðstoðar. Skipin hafa mælt norður undir mörk fiskveiðilögsögunnar norðvestur af landinu á svæði sem búið var að finna loðnu á í byrjun janúar. Þá fundust hvergi þéttar loðnugöngur.

Við lögsögumörkin á Grænaldssundi
Þessa stundina er Árni Friðriksson rétt við lögsögumörkin á Grænlandssundi og Sighvatur Bjarnason og grænlenska uppsjávarskipið Polar Amaroq þar skammt undan. Markmiðið núna er að mæla hversu mikið er af loðnu svo hægt verði meta hvort ástæða sé til að gefa út meiri loðnukvóta.

Niðurstöður að mælingum loknum
Að sögn Þorsteins Sigurðssonar, sviðsstjóra hjá Hafrannsóknastofnun, er líklegt að leiðangurinn taki tvo til þrjá daga í viðbót. Farið verði yfir mælingarnar eftir að honum lýkur og fyrr liggi engar niðurstöður fyrir.

Nær allur útgefinn kvóti til erlendra skipa
Enn sem komið er hefur aðeins verið gefinn út 44.000 tonna loðnukvóti til bráðabirgða og fer nær allur sá kvóti til erlendra skipa sem hafa veiðiheimildir hér við land.