Enginn einstaklingur kærður fyrir niðurhal

18.06.2017 - 12:18
epa05769349 A man types on a laptop computer keyboard in Taipei, Taiwan, early 04 February 2017. On 03 Feburary 2017, five Taiwan security companies suffered distributed Denial -of-service (DDoS) attacks from an anonynous hacker who demanded each firm to
 Mynd: EPA
Persónuvernd gerir ekki athugasemdir við eftirlit 365 miðla með ólöglegu niðurhali á innlendu efni - að svo stöddu. Vinnsla upplýsinganna fer ekki fram með þeim hætti sem lýst var í fréttatilkynningu 365 í fyrra, og enginn einstaklingur hefur verið kærður til lögreglu fyrir niðurhal.

 

Fjölmiðlafyrirtækið 365 sendi frá sér fréttatilkynningu í nóvember í fyrra þar sem sagði meðal annars að fyrirtækið hefði fengið sérhæfð fyrirtæki til þess að fylgjast með IP-tölum þeirra sem hlaða íslensku sjónvarpsefni inn á ólöglegar síður og dreifiveitur. Þá hefði fyrirtækið kært menn fyrir að dreifa ólöglega höfundarréttarvörðu efni. Forstjóri félagsins staðfesti þetta í sjónvarpsviðtali á RÚV, og sagði eina kæru hafa verið lagða fram til lögreglu, eftir ábendingu frá FRÍSK - Félagi rétthafa í sjónvarps- og kvikmyndaiðnaði.

Persónuvernd ákvað að taka til skoðunar hvort eftirlit 365 stæðist lög um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, en lögum samkvæmt þarf heimild til þess að safna persónugreinanlegum upplýsingum.

Hugbúnaður tilkynnir um deilingu efnis

Samkvæmt svörum 365 til Persónuverndar var yfirlýsing fyrirtækisins og forstjórans byggð á misskilningi. Hið rétta er að FRÍSK réði utanaðkomandi aðila til þess að skrifa hugbúnað sem fylgist með því hvort höfundarvörðum titlum og verkum er hlaðið upp á torrentasíðuna deildu.net, en síðan er hýst erlendis. Hugbúnaðurinn skilar sjálfvirkum niðurstöðum til 365 með tölvupósti, þegar ákveðnu efni er hlaðið upp á vefsíðuna.

Hlaða sjálfir niður af deildu.net

365 hefur reynt að finna IP-tölur þeirra sem deila efninu með því að hlaða því sjálfir niður af deildu.net. Hvorki 365 né lögreglu hefur þó tekist að tengja  IP-tölurnar við nöfn eða aðrar persónugreinanlegar upplýsingar. Því hefur enginn einstaklingur verið kærður til lögreglu. Persónuvernd gerir ekki athugasemdir við vinnslu 365 að svo stöddu, en minnir á mikilvægi þess að við upplýsingavinnslu eins þessa sé ávallt gætt að öllum kröfum laga um Persónuvernd

Persónuvernd fór meðal annars í vettvangsheimsókn til 365 miðla og fylgdist með verklagi við eftirlit fyrirtækisins. Tæknistjóri 365 miðla lýsti því að þegar 365 miðlar fá sendan tölvupóst um dreifingu efnis á deildu.net, þá fer starfsmaður fyrirtækisins inn á síðuna og hleður niður efninu. Ef fleiri en einn eru að hlaða niður efninu þá er engin leið fyrir fyrirtækið að vita hver hlóð efninu inn. Í þeim tilvikum þar sem einungis einn aðili er að deila efninu þá tekur fyrirtækið skjáskot af IP-tölunni og sendir til lögreglu.