Engin tilfelli um misbeitingu valds

17.02.2017 - 19:15
Mynd með færslu
 Mynd: rúv
Sveitarfélagið Skagafjörður segir engin tilfelli hafa komið upp þar sem kviknað hafi grunur um að starfsfólk á sambýlum sveitarfélagsins misbeiti valdi sínu frá því sveitarfélagið tók við ábyrgð þjónustu á sambýlinu á Blönduósi í ársbyrjun 2016.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá sveitarfélaginu vegna fréttar sem birt var á RÚV í fyrradag. Þar sagði frá úrskurði sérfræðiteymis innan velferðarráðuneytisins síðan í fyrra um að ólögmætri nauðung og þvingun væri beitt á sambýlinu á Blönduósi. Brotalamir hafi verið í starfsemi sambýlisins frá árinu 2011. 

Í tilkynningu frá Sveitarfélaginu Skagafirði segir að það hafi tekið við ábyrgð á þjónustu við fatlað fólk á Norðurlandi vestra í ársbyrjun 2016. Síðan þá hafi markvisst verið unnið að úrbótum í þjónustu við íbúa meðal annars með fjölgun starfsfólks og miða þjónustuna betur að þörfum einstaklinganna. 

 

Þá tekur sveitarfélagið Skagafjörður undir áherslur félags- og jafnréttismálaráðherra um að fjölga beri réttindagæslumönnum fatlaðs fólks og að aukið sé við eftirlit með starfsemi þjónustu við fatlað fólk. 

 

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV