Enga fordóma fær fá stig frá aðdáendum

25.04.2014 - 11:51
Mynd með færslu
Íslenska Eurovision lagið Enga fordóma með Pollapönki virðist ekki eiga upp á pallborðið hjá aðdáendum Eurovision-söngvakeppninnar. Heimssamtök aðdáendaklúbba keppninnar hafa staðið fyrir stigagjöf á netinu og hefur Ísland aðeins fengið sjö stig þegar klúbbar frá 24 löndum hafa greitt atkvæði.

Reyndar komu öll stigin frá Rússlandi, sem var einmitt 24. landið til að greiða atkvæði. Sænska lagið Undo í flutningi Sanna Nielsen nýtur áberandi mestra vinsælda meðal þeirra sem greitt hafa atkvæði og ungverska lagið Running í flutningi Andras Kallay Saunders er í öðru sæti. Fjögur lög eru enn án stiga, í þessari óformlegu atkvæðagreiðslu. Það eru framlög Albaníu, Georgíu, Litháens og Portúgals.

Hér má fylgjast með atkvæðagreiðslunni og hér er staðan.