Enda Kenny viðurkennir ósigur

27.02.2016 - 23:36
epa05181715 A man walks past a campervan with campaign poster for Fine Gael leader, Irish PM Enda Kenny in Castlebar, County Mayo, Ireland, 26 February 2016. Irish voters go to the polls in the country's general elections.  EPA/AIDAN CRAWLEY
Þessar auglýsingar dugðu skammt til að tryggja framhaldslíf ríkisstjórnar Endas Kennys á Írlandi.  Mynd: EPA
Enda Kenny, forsætisráðherra Írlands, hefur viðurkennt ósigur stjórnarflokkanna, Fina Gael og Verkamannaflokksins, í þingkosningum gærdagsins. Talningu er hvergi nærri lokið því kosningakerfið er með þeim hætti að margtelja þarf atkvæði til að fá fram endanleg úrslit. Líklegt þykir að Fina Gael verði áfram stærsti flokkurinn, en þó litlu stærri en helsti stjórnarandstöðuflokkurinn, gamli valdaflokkurinn Fianna Fáil.

Enda Kenny tryggði sér endurkjör í Mayo-sýslu, en sagði blasa við að sitjandi ríkisstjórn kæmi ekki til með að halda völdum. Það væru mikil vonbrigði og ljóst að enginn möguleiki væri til að mynda meirihlutastjórn. Hann sagðist ætla að bíða endanlegra úrslita áður en hann tæki ákvörðun um næstu skref, en fara yrði rækilega yfir alla kosti í stöðunni. „Landið þarf augljóslega á ríkisstjórn að halda, og verður að fá eina slíka,“ sagði Kenny er hann ávarpaði fréttamenn.

Einsýnt þykir að erfiðar stjórnarmyndunarviðræður séu framundan. Myndun starfhæfrar meirihlutastjórnar virðist afar fjarlægur möguleiki, og flækjustigið þegar litið er til mögulegra minnihlutastjórna og hverjir eiga að verja hverja ef til hennar verður stofnað er ekki minna.

Stærstu flokkarnir tveir, Fianna Fáil og Fine Gael hafa báðir gefið til kynna, að þeir hafi engan hug á að vinna með hinum. Af orðum Kennys að dæma virðist hann vel geta hugsað sér að sitja áfram sem forsætisráðherra minnihlutastjórnar. Micheál Martin, formaður Fianna Fáil er ekki jafn spenntur fyrir þeirri framtíðarsýn, sem vonlegt er, og Mary-Lou McDonald, varaformaður Sinn Féin, reiknar með því að flokkurinn þrýsti á um að Gerry Adams verði næsti forsætisráðherra.

Laust fyrir miðnætti á laugardag lá fyrir hvernig um fjórðungur þingsætanna 157 sem í boði eru verða skipuð. 19 þeirra falla Fianna Fáil í hlut, 13 til Fine Gael, Verkamannaflokkurinn hefur aðeins tryggt sér eitt sæti enn sem komið er, en Sinn Féin 6 og smærri flokkar og óháðir 12. Ekki er búist við að talningu ljúki fyrr en að kvöldi sunnudags og jafnvel ekki fyrr en á mánudag.