Eldsneytisbílar við skotpall í Norður Kóreu

06.02.2016 - 04:45
This image provided by the U.S.-Korea Institute at the Johns Hopkins School of Advanced International Studies via 38 North and via a satellite image from Centre National d’Études Spatiales and Airbus Defense & Space / Spot Image, shows a satellite
 Mynd: ap  -  Centre National d’Études Spat
Gervihnattamyndir sem náðust í vikunni sýna eldsneytisbíla við skotpall í Norður Kóreu. Að sögn bandarísks sérfræðingahóps í málefnum Norður Kóreu er þó ólíklegt að byrjað sé að dæla eldsneyti í eldflaugina sem stjórnvöld ætla að skjóta upp á komandi vikum.

Á myndunum sjást eldsneytisbílarnir nærri olíu- og oxunarbyrgi. Á vefsíðunni 38 North, sem er haldið úti bandarískum samtökum sem fylgjast með Norður Kóreu, segir að líklegra sé að verið sé að fylla á byrgin en á skotpallinn. Áður hafa aðgerðir af þessu tagi verið framkvæmdar einni til tveimur vikum fyrir skot. Tímasetningin samræmist því áformum stjórnvalda um að skjóta gervihnetti á braut um jörðu á næstu vikum, einhvern tímann á milli 8. og 25. febrúar.

Stjórnvöld í Norður Kóreu staðhæfa að eldflaugaskotið sé aðeins í vísindalegum tilgangi. Ríki á borð við Bandaríkin, Suður Kóreu og Kína, sem yfirleitt er á bandi Norður Kóreu, telja hins vegar að um tilraunaskot á langdrægu flugskeyti sé að ræða. Áformin hafa verið gagnrýnd harðlega af þessum ríkjum. Flugfélög í Japan og Suður Kóreu ætla að breyta flugleiðum þeirra véla sem fljúga nærri skotsvæðinu næstu vikur.