Ekki lengur skattahagræði af erlendum félögum

16.03.2016 - 22:23
Mynd með færslu
 Mynd: flickr.com/23748404@N00/
Lektor í skattarétti segir það hafa verið skattalegt hagræði á sínum tíma að stofna félag á Bresku jómfrúreyjum þegar fjárfesta átti í erlendum hlutabréfum. Öðru máli gegnir núna - nú sé betra að fjárfesta beint eða í gegnum félag á Íslandi.

Þegar félög voru stofnuð í skattaparadísum eins og Bresku jómfrúreyjum var það yfirleitt gert vegna skattahagræðingar. Félag var stofnað þar um eignir Önnur Sigurlaugar Pálsdóttur eiginkonu Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, en hún sagði hins vegar í yfirlýsingu að hún hefði tilgreint það í skattframtölum sínum.

Kristján Gunnar Valdimarsson lektor í skattarétti segir að fyrir hrun hafi það verið skattalegt hagræði að hafa eignir í félagi þar. „Það var þá farið eftir skattareglum í viðkomandi land og þá voru mjög hagstæðar skattareglur í þessu lögsagnarumdæmi sem voru Bresku jómfrúreyjar.“

Þetta hagræði er hins vegar úr sögunni. Árið 2010 var sett í skattalög að slík félög yrðu sköttuð samhlið þeim sem á félagið, og á þær tekjur leggst venjulegur tekjuskattur. Í raun sé þetta verra en að fjárfesta beint. „Því að þá er fjármagnstekjuskattur utan atvinnurekstrar lagður á, sem er 20%, en þarna er fólk að lenda í skatti sem er 38-46%, þannig að þetta er óhagkvæmara í dag að vera með þetta félag en að vera sjálfur að gera fjárfestingu eða ver ameð það í gegnum íslenskt eignarhaldsfélag.“

Mynd með færslu
Hallgrímur Indriðason
Fréttastofa RÚV