Ekki lengur óvissustig á Vestfjörðum

06.02.2016 - 09:05
Mynd með færslu
 Mynd: RUV
Óvissustigi vegna snjóflóða hefur verið aflétt á sunnanverðum Vestfjörðum. Veðurstofan aflétti óvissustigi af þeim norðanverðum í gærkvöld og lækkaði viðbúnað á Patreksfirði í óvissustig úr hættustigi en nú hefur óvissustigi verið aflétt um alla Vestfirði.

Ferðafólk til fjalla er þó beðið að sýna gát og gera ráð fyrir því að snjór verði óstöðugur áfram. Almannavarnadeild Ríkislögreglustjóra bendir fólki á að fylgjast með snjóflóðaspám á vef veðurstofunnar. 

Nokkur flóð féllu í veðrinu og gær og fyrradag í flestum landshlutum.

Hált er víða á vegum og hálkublettur á höfuðborgarsvæðinu. Snjór og skafrenningur á Hellisheiði. Þæfingsfærð víða á Vestfjörðum sem og á á Bröttubrekku. Lokað er um Fróðárheiði.

Ófært á Kleifaheiði og Klettshálsi. Á norðanverðum fjörðunum er ófært á Gemlufallsheiði og á Flateyrarvegi og þæfingur í Súgandafirði en annars er víða snjóþekja. Ófært er yfir Vatnsfjarðarháls en hægt er að fara fyrir Vatnsfjarðarnes. Þungfært er á Þröskuldum en unnið að hreinsun samkvæmt tilkynningu Vegagerðarinnar.