Ekki gert við skólp-lokuna í dag

10.07.2017 - 12:24
Mynd með færslu
Inni í skólpdælistöðinni við Faxaskjól  Mynd: RÚV - Jón Þór Víglundsson  -  RÚV
Ekki verður reynt að gera við neyðarloku skólpdælistöðvarinnar í Faxaskjóli í dag. Starfsfólk Veitna ræður ráðum sínum í dag. Neyðarlokan er enn biluð en á meðan hún er niðri, það er lokuð, þá flæðir ekki skólp út í sjó heldur er því dælt í skólphreinsistöðina í Ánanaustum.

Samtals var neyðarlokan uppi í 16 til 17 daga meðan reynt var að gera við hana frá 13. júní til 5. júlí. Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur heldur áfram að taka sýni næstu daga. Ingi B. Poulsen umboðsmaður borgarbúa hefur ekki fengið athugasemdir eða kvartanir frá borgarbúum vegna bilunarinnar eða vegna þess að almenningur var ekki látinn vita. Hann segir að á þessari stundu hafi ekki verið ákveðið hvort umboðsmaður hafi frumkvæði að athugun á málinu.