„Ekki bara við mublusjómennirnir“

01.03.2016 - 19:53
Sigurður Steinar Ketilsson, skipherra á varðskipinu Þór, hvetur áhafnir allra skipa til að kynna sér einkenni krabbameins í blöðruhálskirtli, „ekki bara við mublusjómennirnir“. Krabbameinsfélagið hóf í dag árvekni átak sitt, mottumars.

Siglt var með fréttamenn frá Reykjavíkurhöfn í léttabáti út í varðskipið Þór sem lónaði á sundunum úti fyrir Reykjavík. Stuttu seinna kvað við þyrlugnýr. Svo sigu niður úr þyrlunni forstjórar Krabbameinsfélagsins og Landhelgisgæslunnar með mikilvæga sendingu til skipverja. 

„Það er mér sönn ánægja að fá að veita þér fyrsta björgunarboxið sem er fræðsluefni bæði á myndrænu formi og í bæklingum,“ sagði Kristján Oddsson, forstjóri Krabbameinsfélagsins, um leið og hann rétti Sigurði Steinari kassa með upplýsingum um einkenni blöðruhálsristilskrabbameins. 

„Þetta mál stendur okkur mjög nærri,“ segir Sigurður og bætir við: „Við erum bara á síðustu þremur árum búin að missa þrjá félaga okkar, góða drengi og öfluga fagmenn úr krabba.“

Georg Kr. Lárusson, forstjóri Landhelgisgæslunnar, segir að ákveðið hafi verið að síga niður í skipið til þess að undirstrika mikilvægi þessa máls. 

Sjávarútvegsfyrirtæki styðja mottumars. „Þetta er mikið af körlum sem vinna hjá okkur og ég tala ekki um sjómennina okkar,“ segir Jens Garðar Helgason, formaður Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi. 

„Það er nú eigilega þessi karlrembustétt, sjómenn sem þarf að taka fyrst,“ segir Sigurður Steinar. „Menn eru síðastir að kveinka sér til sjós því það er ekkert hægt að segja að maður sé veikur heima þegar á að fara á vaktina.  Og ég segi bara fyrir hverja einustu áhöfn, ekki bara við mublusjómennirnir, að taka þetta saman, að horfa á myndefnið saman og kynna sér málið.“

Fréttamaður tók eftir því að bæði Georg og Jens voru með þriggja daga skegg. Báðir viðurkenndu þeir að vera að safna í mottu. „Fá eina litla gráa hérna. Maður mun ábyggilega slá í gegn ha!,“ segir Jens og hlær. 

Svo var komið að því að hífa mennina aftur um borð í þyrluna og síðan var þyrlunni flogið burtu, með lokaðar dyr.