„Ekki bara ljót heldur ógeðsleg“

18.01.2016 - 22:57
Áður fyrr bárust líflátshótanirnar aðallega á Netinu en núna er orðið meira um að fólk gangi upp að manni og hóti manni líkamsmeiðingum. Þetta segir Íslendingur sem hefur verið múslimi í rúm fjörutíu ár. Annar múslimi hefur fengið hótanir í sms og eins og þessi: „umskorna múslimatussa. ekki bara ljot heldur ogedsleg og grenjanadi i blodunum.vidviljum ekki svona pakk“.

Sverrir Agnarsson tók íslamstrú árið 1972 og hefur oft orðið fyrir barðinu á hatursfullum ummælum. „Það hefur breyst verulega til hins verra og byrjaði raunverulega fyrir tvíburaturnsárásirnar,“ segir Sverrir. Ummælin séu miklu grimmari nú en á áttunda áratugnum. „Þetta er náttúrulega á Facebook allverulega og þar fæ ég reglulega hatursmeil,“ segir Sverrir. 

Ein skilaboðin hljóma svona: „Moskan á teikniborðinu verður áramótabrenna verði hún byggð, skilaboð til kuflaklæðskiptinganna: heima er best. Íslendingar munu eyða þessari pest eins og öðrum pestum, í fæðingu.“

Sverrir segist hafa fengið margar líflátshótanir. „Það hefur breyst dálítið, það var meira á netinu verið að hóta manni öllu illu en núna er meira að menn gangi upp að manni og segi: þú átt ekki von á góðu, við komum með kylfurnar,“ segir Sverrir. 

Hér er annað dæmi um skilaboð sem hann hefur fengið á Facebook: „Sverrir, þu ert skömm fyrir land þitt, arfleifð og komandi kynslóðir. Megi þu brenna fyrir það tjón sem þu hefur valdið fólkinu sem þu ert kominn af og landinu sem ól þig!“

Sverrir hefur ekki kært neinn fyrir hatursfull ummæli. „En það er einn sem ég er að spekúlera að kæra og er undirbúinn með þá kæru því hann er að kalla mig landráðamann og segja að ég þiggi laun frá erlendum hryðjuverkasamtökum.“

Fær hatursfull ummæli í sms-um
Nadia Tamimi sem einnig er múslimi hefur líka fengið mörg hatursfull ummæli. Þessi fékk hún í sms-i. „Gydingar munu sigra . Drepa allt folkid titt . Drifa sig til gaza i heimsokn. Araba oged“.

Og sum skilaboðin eru enn ógeðfelldari: „umskorna múslimatussa. ekki bara ljot heldur ogedsleg og grenjanadi i blodunum.vidviljum ekki svona pakk“.

Sverrir segir að afleiðingarnar af þessum hatursfullu ummælum séu þær að múslimar veigri sér við því að taka þátt í opinberri umræðu. „mikið það og menn ganga aðeins með veggjum.“