Ekki annað hægt en að veita réttindin aftur

19.01.2016 - 22:30
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Jón Steinar Gunnlaugsson, fyrrverandi hæstaréttardómari, telur ekki annað hægt en að veita lögfræðingi, sem fengið hefur uppreist æru, aftur lögmannsréttindi sem hann var sviptur í kjölfar manndráps. Ekki megi mismuna mönnum eftir því hvað þeir hafi brotið af sér.

Atli Helgason, sem var sviptur lögmannsréttindum þegar hann var dæmdur fyrir manndráp árið 2001, hefur sótt um að fá réttindin aftur. Það getur hann eftir að hafa fengið uppreist æru fyrir áramót. Málið hefur vakið mikla athygli eftir að Kastljós fjallaði um það í gærkvöld.

Jón Steinar segir að umræðan hafi beinst að persónu mannsins í stað þess að fjalla um það út frá almennum reglum. „Þó að það sé nú dálítið skrítið að hugsa sér það að maður sem hefur drýgt svona glæp hafi óflekkað mannorð, en þannig er það í laganna skilningi, og þá verðum við bara að fylgja því eftir,“ segir Jón Steinar. Hann spyr hvort menn ætli að beita mismunandi reglum eftir því hvað þeir sem eiga í hlut heita, hvað þeir gerðu eða fyrir hvað þeir voru dæmdir. „Það er ekki hægt að gera það. Menn verða að skilja þetta.“

Til að lögfræðingur geti fengið lögmannsréttindin aftur þarf hann meðmæli frá Lögmannafélagi Íslands. Jón Steinar, sem er fyrrverandi formaður félagsins, kallar eftir rökum fyrir því hvers vegna Lögmannafélagið ætti að mæla gegn því.

„Meginatriði þessa máls er það að við verðum að hætta að hugsa um réttarstöðu einstaklinga eftir því hverjir eiga hlut að máli,“ segir Jón Steinar. „Við verðum að geta hugsað um þetta eftir almennum lagareglum sem gilda jafnt um alla. Það er það sem að mér finnst vera aðalatriðið í þessu máli.“