„Ekkert í Flokki fólksins er ómannúðlegt“

10.09.2017 - 13:12
Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, segir að flokkurinn eigi fullt af pólitískum andstæðingum sem sitji í hverju skúmaskoti og reyni að skjóta flokkinn niður. Hún segist bera virðingu fyrir því sem Sigríður Andersen er að gera í málefnum hælisleitenda, meðal annars með því að flýta málsmeðferðarhraðanum. Hún sé þó þeirrar skoðunar að það eigi ekki að bitna á þeim sem sækja hér um hæli þegar ríkið dregur lappirnar.

Flokkur fólksins hefur verið að sækja í sig veðrið í skoðanakönnunum og mældist í byrjun mánaðarins með 11 prósenta fylgi.  Flokkurinn hefur lýst því yfir að hann ætli að bjóða fram í borgarstjórnarkosningunum næsta vor og Inga Sæland, formaður flokksins, hefur verið nefnd sem hugsanlegur oddviti flokksins

Inga var gestur Silfursins á RÚV í morgun og gaf þar til kynna að það væri ekki meitlað í stein að hún yrði oddviti. „Það er heil meðganga í kosningar og það er eitthvað sem á eftir að gerast en jú, það er rétt, það er svona gengið út frá því að ég verði sú sem komi til með að leiða lista flokksins.“

Flokkurinn náði inn á fjárlög eftir síðustu kosningar og Inga segir það vera skyldu þeirra að vinna að pólitísku starfi og hugsjón. „Við getum ekki setið með hendur í skauti.“

Inga sagði að húsnæðismálin yrðu ofarlega á baugi fyrir kosningarnar, flestir sem ynnu að málefnum borgarinnar sæju að ákveðnir hlutir væru í lamasessi. Yfir 1.100 væru að bíða eftir félagslegu húsnæði sem væri hræðilegt í jafn ríku landi og Íslandi gæfi sig út fyrir að vera.   Það þyrfti því stórfellda uppbyggingu fyrir þá sem væru á lægri launum. Í borginni væri rekin lóðaskortastefna en spýta ætti í lófana og byggja upp í þessum svokölluðu úthverfum.  „Í dag þarft þú einhverja að hafa einhverja silfurskeið eða góðan bakgrunn til að geta eignast húsnæði og leigumarkaðurinn er kominn út fyrir öll þolmörk þar sem rekin er slík græðgisstefna.“

Inga sagði grunnskólann líka vera sér hugleikinn - skólastefnan væri rekinn inn í einhverjum ramma og það væri ekki skrýtið að ungum drengjum liði illa í framhaldsskóla þegar um þrjátíu prósent þeirra væru að útskrifast illa læsir eða með slæman lesskilning.

Flokkur fólksins hefur verið sakaður um að daður við útlendingaandúð en Inga segir að flokkurinn eigi fullt af pólitískum andstæðingum sem sitji í hverju skúmaskoti og reyni að skjóta flokkinn niður. 

Hún segir það alltaf hafa legið fyrir að henni sviði þær krónur sem settar væru í hælisleitendur sem yrðu hvort eð er sendir úr landi.  Þegar ríkið drægi lappirnar ætti það ekki að bitna á þeim. „Þegar fólk hefur verið á landinu í eitt eða tvö ár, börnin farin að tala íslensku og með væntingar um að fá eiga að heima hér þá myndi ég 150 prósent segja að það ætti að fá eiga heima hér.“ Hún myndi alltaf segja já við mannúð. „Ekkert í flokki fólksins er ómannúðlegt.“

Viðtalið í heild við Ingu verður hægt að sjá hér að ofan innan skamms.

 

Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV
Silfrið