„Eins og borgin hefði dáið í smástund“

18.08.2017 - 08:02
Íbúar Barselóna hafa síðustu ár búið við hryðjuverkaógn segir Harpa Sigurfinnsdóttir sem bjó í borginni um árabil og er þar á ferðalagi. Hún var í nágrenni Römblunnar þegar hryðjuverkin voru framin í gær. Harpa segir að þögn hafi færst yfir borgina fyrst um sinn eftir árásina.

„Fólkaði labbaði út á götu, út frá Römblunni þar sem mátti labba og það var bara þögn. Það var enginn að tala. Það var eins og borgin hefði dáið í smástund,“ sagði Harpa í morgunútvarpinu á Rás 2.

„Það versta er, af þessu öllu, að fólk hefur bara verið að bíða eftir þessu. Á síðustu árum hefur viðbragðsstaða lögreglunnar aukist svakalega, frá árásunum í París. Þetta er það sem Barselónabúar eru búnir að bíða eftir í allan þennan tíma og það gerðist bara í gær að þeir náðu því,“ sagði Harpa.

Lögreglan í Katalóníu handtók í morgun þriðja manninn í tengslum við árásina í Barselóna í gær. Hann var handtekinn í borginni Ripoll, sömu borg og Driss Oukabir, sem talinn er hafa tekið á leigu sendiferðabílinn sem var notaður í árásinni á Römblunni í gær. Talið er að yngsta fórnarlamb árásarinnar í Barselóna sé þriggja ára gömul stúlka. Þá segir í Guardian að sex ára stúlka sé mikið slösuð á sjúkrahúsi.

Javier Zaragoza, yfirmaður Audiencia Nacional, dómstigsins sem tekur á hryðjuverkum, segir hryðjuverkamennina í Cambrils tengjast vígahreyfingum. Mennirnir voru skotnir til bana af lögreglu eftir að hafa ekið yfir vegfarendur í borginni og sært sex.