„Eins og að vinna farandverkavinnu“

15.02.2016 - 11:04
Nokkrir tugir manna eru á Reyðarfirði þessa stundina að taka upp þáttaröð númer tvö af bresku spennuþáttunum Fortitude og fer það ekki framhjá neinum bæjarbúa.

Það er kannski einhver harmur fyrir heimamenn að búa í bæ úti á landi sem leikur Svalbarða í breskum sálfræðitrylli. Í það minnsta ef maður gefur sér það að Svalbarði sé eins mikill útnári og á eins miklum hjara veraldar og hugsast getur. Samfélag manna á mörkum þess byggilega heims.

Af öllum bæjum á norðurhveli jarðar, sem skipta þúsundum, varð Reyðarfjörður fyrir valinu sem tökustaður Fortitude, breskrar sjónvarpsseríu hvers söguþráður er helst til og flókinn til að rekja hér í fáeinum orðum. Látum nægja að segja að það er eitthvað óhuggulegt á seyði í bænum Fortitude. Friðsæll bær þar sem glæpir þekkjast ekki. Þar til einn daginn finnst lík og morðrannsókn hefst.

En hafi menn haft einhverjar áhyggjur af því að búa í bæ sem lék Svalbarða þá þurrkuðust þær út um leið og fólk áttaði sig á því að maðurinn sem hljóp á næsta hlaupabretti í ræktinni hét Stanley Tucci og er frægur leikari út Hollywood. Og konan sem drakk kaffi úr pappamáli fyrir utan Krónuna hét Sofie Gråbøl. Hún lék í Glæpnum eða Forbrydelsen á Rúv. Hún lék í Glæpnum og síðan var hún bara komin á Reyðarfjörð. Að drekka kaffi. Úr pappamáli. Fyrir utan Krónuna.

Lífið er alltaf að koma manni á óvart.

Það er eiginlega ekki hægt annað en að verða þess var að eitthvað óvenjulegt er í gangi í bænum. Beiðnir frá kvikmyndagerðarfólkinu um að fólk slökkvi ljósin heima hjá sér eða takmarki umferð í götunni sinni berast inn um bréfalúguna. Götum er lokað tímabundið og um bæinn ganga alskeggjaðir utanbæjarmenn.

Við áttum stefnumót við einn úr tökuliðinu, Kristínu Þórisdóttur (Kiddu rokk), stefnumót sem frestað var nokkrum sinnum, vegna anna hjá kvikmyndagerðarmönnunum en hópurinn staldrar við í skamman tíma og vinnur mikið. Kidda segir þetta líkjast því að vinna farandverkavinnu eða í sirkus. 

Mynd með færslu
Jón Knútur Ásmundsson
dagskrárgerðarmaður
Sögur af landi
Þessi þáttur er í hlaðvarpi