„Ég gaf henni líf og hún gaf mér annað“

11.02.2016 - 21:02
Karen og Júlíus.
Karen og Júlíus.  Mynd: RÚV
„Ég gaf henni líf og hún gaf mér annað,“ segir stolt mamma sjö ára stelpu sem var í dag útnefnd skyndihjálparmaður ársins, en hún sýndi snarræði þegar hún ásamt vini sínum bjargaði mömmu sinni frá drukknun.

20 ára afmæli Neyðarlínunnar var fagnað um allt land í dag. Í Skógarhlíð í Reykjavík veitti Rauði krossinn viðurkenninguna skyndihjálparmaður ársins. Karen Sæberg Guðmundsdóttir, 7 ára, hlaut viðurkenninguna en hún, ásamt vini sínum Júlíusi, sýndi mikið snarræði þegar mamma hennar missti meðvitund í heitum potti.

„Mamma mín er með flogaveiki og hún var komið með vatnið að hausnum og ég tók hausinn upp úr og lét vin minn ná í pabba. og hvernig vissirðu hvað þú ættir að gera. - Útaf Hjálpfúsi - Hver er hann? - Þessi hér.“

Hjálpfús er fingrabrúða Rauða krossins sem kennir nemendum að rétta fólki hjálparhönd þegar eitthvað bjátar á. Mamma Karenar gaf henni myndefni með Hjálpfúsi eftir spítalalegu fyrir nokkrum árum.

„Svona er þetta bara ég fæ þessi flog, þetta gerist og er ekkert leyndarmál. Henni er ekkert ýtt frá, þetta er bara hluti af mér. Ég er bara rosalega montin og mjög þakklát ég gaf henni líf og hún gaf mér annað líf, svona aukalíf.“

Verkefnastjóri skyndihjálpar hjá Rauða krossinum segir það aldrei of snemmt að ræða um það að hjálpa náunganum. Skyndihjálparmaður ársins beri vott um það.

„Þetta minnir mann á það að það geta allir bjargað. Ef þú hefur lært einhverja skyndihjálp þá geturðu bjargað og þú getur það þótt þú sért bara sex ára.“

 

Mynd með færslu
Halla Ólafsdóttir
Fréttastofa RÚV