Mynd með færslu
09.05.2017 - 15:47.Guðni Tómasson.Víðsjá
Klassíkin okkar – heimur óperunnar er samkvæmisleikur sem Ríkisútvarpið, Sinfóníuhljómsveit Íslands og Íslenska óperan bjóða upp á nú í sumarbyrjun og hefst um næstu helgi.

Hlustendur velja efnisskrána

Í fimm vikulegum þáttum á Rás 1, sem hefjast laugardaginn 13. maí, verður listi með 42 aríum og atriðum úr sígildum óperum kynntur fyrir hlustendum.

17. maí fer af stað sérstök kosning á vefsíðunni ruv.is/klassikin þar sem hægt verður að velja milli atriðanna og hafa þannig áhrif á efnisskrá sérstakra hátíðartónleika sem haldnir verða 1. september næstkomandi, í upphafi nýs starfsárs Sinfóníuhljómsveitarinnar. Tónleikarnir verða í beinni útsendingu á RÚV en kosningunni lýkur 17. júní.

Heillandi heimur

Árni Heimir Ingólfsson, listrænn ráðgjafi hjá Sinfóníuhljómsveit Íslands, hafði aðalumsjón með því að velja atriðin 42 sem kynnt verða í þáttunum og hægt verður að velja á milli. „Við ætluðum að hafa þau 40 talsins en okkur var fullkomlega ómögulegt að skera þetta meira niður,“ segir Árni Heimir. „Þarna eru gullmolarnir úr óperunum, atriðin þar sem söguhetjurnar stíga fram og sýna okkur inn í huga sinn. Þetta eru tilfinningaþrungnu augnablikin úr tónverkunum og við fáum beintenginu inn í tilfinningar persónanna. Í söngnum býr einhvern vegin dýpsta tjáning manneskjunnar.“

Umsjón með útvarpsþáttunum Klassíkin okkar – heimur óperunnar hefur Guðni Tómasson. Þeir hefjast 13. maí en kosningin hefst 17. maí á ruv.is/klassikin