Dómari verður að fjalla um mál tveggja hana

Mynd með færslu
Myndin er úr safni.  Mynd: Aðsend mynd  -  RÚV
Héraðsdómur Reykjavíkur verður að taka deilu um tvo hana og nokkrar hænur til efnislegrar umfjöllunar. Þetta er niðurstaða Hæstaréttar í deilu sem risið hefur um hanahald í Mosfellsdal. Þar hafa tveir hanar og nokkrar hænur verið haldnar án þess að sótt hafi verið um leyfi fyrir slíku. Nágranni hefur kvartað undan hávaða í meira en fjögur ár.

Heilbrigðiseftirlit Kjósarsvæðisins ákvað í maí í fyrra að fjarlægja ætti hanana af lóðinni vegna ónæðis sem þeir hefðu valdið um árabil. Eigandinn sætti sig ekki við það og að lokum leitaði Heilbrigðiseftirlitið til Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Þá var óskað dómsúrskurðar um rétt lögreglu til húsleitar og að eiganda hananna og hænsnanna yrði gert að afhenda lögreglunni fiðurféð. Eigandinn sætti sig ekki við það og barðist gegn því að missa fuglana.

Héraðsdómur Reykjavíkur vísaði málinu frá í síðustu viku og því fékkst ekki leyfi til að fjarlægja hanana og hænurnar. Hæstiréttur dæmdi hinsvegar í dag að héraðsdómur yrði að taka málið til efnislegrar meðferðar og skera úr um hvort afhenda ætti lögreglunni fuglana eða ekki.