Djöflaskítur í gettóinu

Hiphop
 · 
Lestin
 · 
rapp
 · 
Tónlist
 · 
Menningarefni

Djöflaskítur í gettóinu

Hiphop
 · 
Lestin
 · 
rapp
 · 
Tónlist
 · 
Menningarefni
Mynd með færslu
14.08.2017 - 16:30.Anna Gyða Sigurgísladóttir.Lestin
Memphis-borg í Tennessee í Bandaríkjunum er gjarnan sögð vera heimaborg blússins og hefur haft mikil áhrif á rokk- og sálartónlist. Hiphop-sena borgarinnar er þó ekki síður merkileg. Þórður Ingi Jónsson, betur þekktur sem rapparinn og taktsmiðurinn Lord Pusswhip, kannar jaðartónlist í Lestinni á Rás 1 í haust. Hér skoðar hann hiphop-senu Memphis.

Þórður Ingi Jónsson skrifar:

Memphis í Tennessee-fylki Bandaríkjanna er stærsta borgin sem liggur við Mississippi ána frægu. Johnny Cash kallaði borgina heimili blússins og hún er einnig þekkt sem fæðingarstaður rokksins, enda stigu margar goðsagnir sín fyrstu skref þar svo sem Aretha Franklin, Elvis Presley og Jerry Lee Lewis.

Í dag er það hins vegar hvorki blúsinn né rokkið sem við ætlum að kryfja til mergjar, heldur er það rappmenning Memphisborgar. Rapptónlist Memphis er svo sérstæð og áhrifamikil að mörg einkenni rapptónlistar nútímans eiga rætur sínar að rekja þangað. Það helsta sem hefur breyst í rappheimi Bandaríkjanna á seinustu árum er að þungamiðja menningarinnar færðist frá austurströndinni, fæðingarstað rappsins, niður til Suðurríkjanna en nú er það Atlanta sem trónir á toppnum sem höfuðborg rappsins.

Þrátt fyrir menningaráhrif Memphisborgar eru örfáir tónlistarmenn þaðan sem hafa náð langt í meginstraumi tónlistar. Menn á borð við Juicy J og Yo Gotti eru þeir helstu en engu að síður gætir mikilla áhrifa Memphis rapps í popp- og rapptónlist nútímans. Hlutir eins og skoppandi tríóluhattar, brummandi bassi úr Roland 808 trommuheilanum og hið svokallaða „double-time“ rapp, þar sem menn röppuðu mun hraðar en þekkst hafði.

Þessi tónlistarmenning hefur fengið uppreisn æru á seinni árum og þá sérstaklega í heimi neðanjarðarrappsins. Tónlistarnördar eru sammála um að rappið sem kom þaðan á tíunda áratugnum hafi verið á undan sinni samtíð. Á gullöld Memphis rappsins réðu kassetturnar ríkjum en mikið af þessari tónlist er í svokölluðum „lo-fi“ gæðum, það er að segja búin til og tekin upp á ódýrum upptökutækjum, sem gaf tónlistinni einstakan hljóm. Rappið var einnig drungalegra og níhilískara en áður hafði heyrst enda er Memphis ein hættulegasta borg Bandaríkjanna. Hljómurinn hélst í hendur við offorsið og ofbeldið sem einkenndi fátækrahverfi Memphisborgar.

Hið slæma ástand fátækrahverfa borgarinnar mátti rekja til hinnar svokölluðu „New Deal“ áætlunar Franklin Roosevelts Bandaríkjaforseta, sem átti að sporna við áhrifum kreppunnar miklu á fjórða áratugnum. Félagslegt húsnæði var byggt í því skyni að koma þaki yfir höfuðið á fátæku fólki tímabundið en allt kom fyrir ekki - hverfin urðu til frambúðar og fólki var gleymt að miklu leyti. Stórum hópi fólks var smalað saman í lítið rými þar sem volæðið ríkti. Skólarnir lélegir og félagsþjónusta ekki til staðar. Þótt margir ynnu baki brotnu í hefðbundnum störfum varð sala á vímuefnum hin nýja tekjulind á sjöunda áratugnum. Ástandið versnaði til mikilla muna á níunda áratugnum þegar krakkið kom til sögunnar. Glæpagengin komu þá sterk inn en það var í þessu vonlausa umhverfi sem rappsenan fór að blómstra.

Sú hljómsveit sem vakti einna mesta athygli á þessum tíma var Three Six Mafia en fyrstu meðlimirnir voru bræðurnir DJ Paul og Lord Infamous. Faðir þeirra var prestur sem lét Paul spila á kirkjuorgelið sem barn. Paul vísar í þá staðreynd til að útskýra hinn dimma og gotneska hljóm tónlistar þeirra, þar sem hann notaði oft búta úr hryllingsmyndum í töktunum, á meðan Lord Infamous rappaði um ofbeldi, eiturlyf og það sem þeir kölluðu „djöflaskít“, enda er nafn hljómsveitarinnar augljós tilvísun í 666, tölu djöfulsins. Í Memphis eru reyndar fleiri kirkjur en bensínstöðvar þannig að þessi mótþrói var að sjálfsögðu umdeildur hjá eldri kynslóðinni. Rétt eins og pönkararnir í Bretlandi notuðu hakakrossinn til að stuða foreldra sína, notuðu þessir ungu menn öfuga krossinn sem þótti hin mesta svívirðing í biblíubeltinu. Lesari man þegar vinur minn frá Suðurríkjunum lýsti tónlist þeirra sem táknmynd þess sem hvítir, kristnir foreldrar óttuðust, og er það ansi góð lýsing á mikið af tónlistinni úr þessari senu.

Hápunktur ferils Three Six Mafia var líklega árið 2005 þegar sveitin hlaut þann heiður að vera fyrsta rappsveitin til að fá Óskarsverðlaunin fyrir besta lagið. Þetta var lagið It’s Hard Out Here for a Pimp fyrir myndina Hustle & Flow en hún fjallar um vændissala í Memphis sem ákveður að reyna fyrir sér sem rappari.

Aðrir mikilvægir rapparar í senunni sem komu á undan Three Six Mafia voru t.d. 8ball & MJG, DJ Squeeky og Gangsta Pat, sem við heyrum núna, en hann fær oft heiðurinn fyrir að hafa byrjað svokallaða „double-time“ flæðið eins og áður var nefnt, sem lýsir tvöföldum hraða á rappinu. Þessi stíll er mikið notaður í dag, bæði í meginstraumnum og í jaðarsenunni. Ekki er hægt að fjalla um Memphis rappið án þess að minnast stuttlega á Tommy Wright III. Í bandarískum kúltúr hefur alltaf verið mikill áhugi á útlaganum og andhetjunni en Tommy Wright var mjög gott dæmi um þetta. Hann gaf út ótal kassettur og plötur á þessum tíma sem eru allar taldar sígildar, en á tíunda áratuginum stundaði Tommy því miður ýmislega glæpastarfsemi. Hann þurfti síðan að uppskera það sem hann sáði enda fór hann oft inn og út úr fangelsi á seinni árum. Sagt er að Tommy Wright hafi verið innblásturinn á bak við aðalpersónu kvikmyndarinnar Hustle & Flow sem minnst var á áður.

Nú höfum við stiklað á stóru um þessa merkilegu senu sem hlaut kannski ekki mikla athygli fyrir utan Bandaríkin lengi vel, en nú eru áhrif hennar víðtæk í tónlist okkar.