Bruninn á Grettisgötu: Húsið líklega rifið

08.03.2016 - 19:25
Jón Viðar Matthíasson, slökkviliðsstjóri, segir að iðnaðarhúsnæðið á Grettisgötu sé mikið skemmt eftir brunann í gærkvöld. Það kæmi honum ekki á óvart ef húsið yrði hreinlega rifið. Jón Viðar vildi ekki tjá sig um eldsupptök né hvort grunur léki á íkveikju. Hann sagði það þó umhugsunarefni hversu mikill eldurinn hefði verið orðinn þegar slökkvilið kom á vettvang.

Fjallað var ítarlega um brunann í kvöldfréttum Sjónvarps. Meðal annars var rætt við ungt par sem missti allt sitt í brunanum og Hilmar Ægi Þórarinsson sem er sonur eiganda hússins. „Þetta er náttúrulega hrikalegt. Það er engin orð sem ná yfir það,“ sagði Hilmar í samtali við fréttastofu.

Fréttastofa greindi frá því fyrr í kvöld að lögreglan leitaði tveggja manna í tengslum við rannsókn á brunanum en ekki fjögurra. Jóhann Karl Þórisson, yfirlögregluþjónn, sagði í samtali við fréttastofu að tæknideild lögreglunnar hefði ekki fengið að fara inn í húsið vegna hrunhættu. Til stæði að funda með verkfræðingum á morgun þar sem farið yrði yfir málið.