Börnum hótað lífláti á vinsælum samfélagsmiðli

15.07.2017 - 19:49
Börnum er hótað lífláti og hatursáróður veður uppi á vinsælum samfélagsmiðli. Móðir í Hveragerði segist hafa fengið áfall þegar hún skoðaði síma 10 ára dóttur sinnar.

Á samfélagsmiðlinum Musically, sem nýtur mikilla vinsælda meðal íslenskra barna nú um stundir, geta notendur hlaðið upp myndböndum af sjálfum sér að syngja lög eftir frægar poppstjörnur, sent skilaboð sín á milli og gefið hvert öðru einkunn.

Lóreley á tíu ára dóttur sem hefur notað miðillinn undanfarið til að æfa sig í söng og dansi. En ekki er allt sem sýnist og blöskraði Loreley í gær þegar hún skoðaði síma dóttur sinnar, það sem þar fer fram á milli barna og unglinga.

„Og þá sá ég bara virkilega ljótar síður og skilaboð sem eru að ganga krakka á milli,“ segir Loreley.

Skilaboðin sem fara á milli notenda eru mörg hver ansi svæsin, þú ert ömurleg, ég mun alltaf hata þig, nennirðu ekki að drepa þig, og oj hvað þú ert feit, eru meðal þeirra skilaboða sem að notendur fá frá jafnöldrum sínum. Þar með er ekki allt upptallið. Á miðlinum eru einnig hópar þar sem börn sameinast í andúð sinni á öðrum, og sumstaðar er meira að segja gengið svo langt að notendum sé óskað dauða.

Loreley segir erfitt fyrir foreldra að fylgjast náið með samfélagsmiðlanotkun barna sinna, þótt ýmis úrræði séu í boði. Þegar einn samfélagsmiðill verður úreltur, dúkki annar upp.

„Bara til dæmis eins og með mig þá kann ég voða lítið á þessa miðla. Og þegar ég fór að skoða þá sér maður að það eru síður ofan í síður þar sem eru boði þessi spjöll og þessi kommentakerfi og krakkar eru með þessar síður sem að mamma og pabbi eru inná og svo eru aðrar síður sem eru prívat og þá vita foreldrarnir til dæmis ekki af þeim.“

Hún telur mikilvægt að foreldrar standi saman og séu tilbúin að ræða við börnin sín þegar þau eru gerendur í eineltismálum á netinu.

„Það er eins og vandamálið sé líka hjá foreldrunum. Þeir eru ekki til í að standa saman og ganga frá svona máli við krakkana þegar kemur að því að þeirra krakki er að leggja í einelti.“

Í myndbandinu að ofan er einnig rætt við Sigríði Láru Haraldsdóttur frá Erindi, samtökum um samskipti og skólamál.

Mynd með færslu
Guðmundur Björn Þorbjörnsson
Fréttastofa RÚV