Borgarstjóri ásakaður um misnotkun á börnum

13.09.2017 - 06:45
FILE - This June 14, 2017 file photo Seattle Mayor Ed Murray takes a question at a news conference at City Hall in Seattle. Murray announced his resignation, Tuesday, Sept. 12 after a fifth man came forward and accused him of sexual abuse decades ago.
 Mynd: AP
Borgarstjórinn í Seattle í Bandaríkjunum tilkynnti afsögn sína í gærkvöld, eftir að fimm menn höfðu ásakað hann um að beita þá kynferðislegu ofbeldi í æsku. Afsögnin tekur gildi frá klukkan fimm síðdegis að staðartíma í dag.

Ed Murray, borgarstjóri, hefur alla tíð neitað sök. Hann hafði áður tilkynnt að hann ætlaði ekki að bjóða sig fram öðru sinni til embættis borgarstjóra, en ákvað að ganga alla leið í þetta skiptið. Hann segir í yfirlýsingu að þó ásakanir í hans garð séu ósannar, sé mikilvægt fyrir borgarstjórn að geta starfað utan skugga persónulegra málefna borgarstjórans. 

Seattle Times birti í gær frétt þar sem Murray var sakaður um að hafa beitt frænda sinn kynferðisofbeldi í æsku. Fjórir aðrir höfðu sakað hann um slíkt áður, þeirra á meðal Jeff Simpson sem Murray tók í fóstur snemma á níunda áratug síðustu aldar. Guardian hefur eftir viðtali við Joseph Dyer, frænda Murrays, að Murray hafi búið inni á fjölskyldu hans um miðjan áttunda áratuginn. Murray var þá rétt rúmlega tvítugur en Dyer 13 ára. Þeir deildu herbergi og segir Dyer að Murray hafi margoft misnotað hann árið sem hann bjó þar.

Murray þvertekur fyrir að hafa beitt nokkurn dreng ofbeldi, og segir ásakanir Dyers komnar til vegna deilna innan fjölskyldunnar. Það sé þó borginni fyrir bestu að hann segi af sér og bað hann jafnt borgarbúa sem og starfsfólk sitt afsökunar á ástandinu í yfirlýsingu sinni.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV