Blóðugur dagur í Sýrlandi

21.02.2016 - 17:55
epa05173431 Syrian policemen and citizens inspect the site of a twin bomb attack in the city of Homs, Syria, 21 February 2015. The death toll from the double bomb attack in the Syrian city of Homs rose to 46, including at least 28 civilians, the Syrian
 Mynd: EPA
Tæplega eitt hundrað féllu í sprengjuárásum stjórnarhersins og uppreisnarmanna í borgunum Homs og Damaskus í Sýrlandi í dag. Líklegt er að enn fleiri liggi í valnum. Þá féllu yfir 50 vígamenn hryðjuverkasamtakanna Íslamska ríkisins í Aleppo í gær og í dag.

Ríkisfjölmiðlar í Sýrlandi og Sýrlenska mannréttindavaktin greina frá þessu. Í borginni Homs féllu að minnsta kosti 57, mest megnis almennir borgarar, í tveimur bílsprengjuárásum. 

30 til viðbótar fórust í fjórum sprengjuárásum í Sayyida Zeinab, úthverfi höfuðborgarinnar Damaskus. Hryðjuverkasamtökin sem kenna sig við Íslamskt ríki hafa lýst yfir ábyrgð árásunum í Damaskus, en báðar borgirnar hafa verið skotmörk samtakanna um hríð. 

Árásirnar í Homs áttu sér stað í hverfi þar sem Alavítar eru í meirihluta, en Bashar al-Assad, forseti, er sjálfur Alavíti.  
Borgin Homs var ein af fyrstu borgunum sem uppreisnarmenn náðu á sitt vald. Á síðasta ári náði stjórnarherinn yfirráðum í borginni.

Lítið er vitað um árásirnar í Damaskus, en þær voru gerðar í Sayyida Zeinab hverfinu. Í því hverfi er að finna helgasta líkneski shía múslima í Sýrlandi.

Óhætt er að segja að Sýrlandsher og vígamenn Íslamska ríksins hafi borist á banaspjótum um helgina, en að minnsta kosti fimmtíu vígamenn samtakanna hafa fallið í loftárásum í borginni Aleppo undanfarinn sólarhring. 

Vonast hafði verið til þess að að tímabundið vopnahlé tæki gildi í Sýrlandi síðastliðinn föstudag. Þrátt fyrir blóðbað helgarinnar sagði John Kerry, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, fyrr í dag að vopnahlé væri í augsýn. Assad Sýrlandsforseti virðist þó hvergi ætla að slaka í hernaðaraðgerðum, en hann sagði í viðtali við spænska blaðið El Pais í gær að hann vonaðist til þes að eftir tíu ár yrði sín minnst sem mannsins sem bjargaði Sýrlandi.